Karen Axelsdóttir - haus
18. júlí 2011

Aumingi eða súperman?

Ég þjálfaði síðasta hópinn minn í dag og er komin í "frí" út ágúst. Náði sem betur fer að breyta fluginu mínu heim til Íslands en Íslandsmeistaramótið í ólympískri vegalengd (1500 m sund + 40 km hjól + 10 km hlaup) er núna á laugardaginn og ég átti bókað heim með kvöldvélinni kvöldið áður. Stefndi sem sagt á tímabili í það að ég væri púslandi saman hjólinu mínu kl 1:30 um nóttina til að keppa í Hveragerði kl 8 um morguninn. 

Ég fékk líka æfingaprógramið mitt í dag. Bjóst við einhverju léttu og nettu til að byrja með. Nei nei 4.5 tíma æfingapakki þrjá daga í röð. Það á greinilega að grilla mann í startholunum. Í dag var planið 4 km sund, 2 tíma hlaup á 4:45 og svo klukkutími rólega á hjólinu. Vona að mamma verði ekki andvaka af því að lesa þetta. Ég er ekki með neina hjálp með krakkana eins og er þannig ekki sjéns að ég kæmi þessu fyrir öllu í dag þar sem ég var að þjálfa meðan að þau voru í skólanum. Valdi stutt sund og allt hlaupið en sleppti hjólinu. Ég er löngu hætt að spá í það ef ég næ ekki að koma einhverju inn. Ég geri alltaf mitt best til að púsla þessu saman og velti mér ekki 1 mín yfir því ef ég sé að dæmið er ekki að ganga upp. Ég þurfti að einbeita mér að því að hlaupa svona hægt fyrsta klukkutímann. Sú gleði breyttist sviplega og eftir 75 mínútur þurfti ég að einbeita mér að því drullast úr sporunum og því þreytan frá  því í gær var komin í öðru veldi. Ekkert smá fín lína í þessu sporti milli þess að líða eins og súperman eða algjörum aumingja. Þegar að auminginn mætir þá byrjar stríð í kollinum á þér.  Hugurinn fer á fullt við það að fá þig til að gefast upp eða amk hægja ferðina. Oftast kemst maður á gott skrið aftur og maður verður að trúa því að það gerist. Það er m.a þetta sálarstríð sem gerir úthaldsþróttir svo sjarmerandi. Þú lærir að þekkja sjálfa/n þig alveg ótrúlega vel við það að temja aumingjann nógu oft.