Lausaféð er mjög fljótt að þorna upp

Hótelin standa frammi fyrir hruni í eftirspurn vegna kórónuveirunnar. Bakslagið kemur á viðkvæmum tíma. Mörg hótelin hafa verið í uppbyggingu og horfa nú fram á annað áfallið á einu ári, ári eftir fall WOW air. Fjölda hótela verður lokað í varúðarskyni en hætt er við gjaldþrotum.

Framboð á hótelgistingu hefur stóraukist síðustu ár. Hefur það haldist í hendur við stóraukið flugframboð og stöðuga fjölgun ferðamanna fram að falli WOW air. Með því hefur kerfislægt mikilvægi ferðaþjónustunnar aukist en jafnframt áhættan fyrir þjóðarbúið af alvarlegu bakslagi.

Fyrir fimm árum, í ársbyrjun 2015, voru 96 hótel á landinu, þar af 38 á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt talningu Hagstofunnar. Alls voru um 6.030 herbergi á landinu, þar af 3.400 á höfuðborgarsvæðinu.

Ætla má að mikill meirihluti herbergja á höfuðborgarsvæðinu hafi verið í miðborg Reykjavíkur.

Hótelin voru orðin alls 159 í janúar á þessu ári og voru þar af 58 á höfuðborgarsvæðinu. Með því fjölgaði herbergjum í um 10.750 og voru þar af 5.400 á höfuðborgarsvæðinu.

Af þessu leiðir að ef nýtingin hjá hótelunum verður um 20% fram að 1. júní vegna kórónuveirunnar munu ríflega 8.000 herbergi standa auð.

Miðað við 75% nýtingu á hótelum og að nóttin skili 10 þúsund krónum þýðir það tekjutap upp á 60 milljónir á dag, eða um 1,8 milljarða á mánuði.

Það þýðir um 4,5 milljarða tekjutap síðari hlutann í mars og út maí.

Við það bætist tap vegna veitingasölu sem er stór hluti í rekstri margra hótela, einkum úti á landi.

Mjög erfitt fyrir þau öll

Spurningin er hvort raunhæft sé að hótelin standi af sér þennan storm án frekari ríkisaðstoðar en boðuð hefur verið. Rætt er um að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði hluta launa og að gjöld á borð við staðgreiðslu verði fryst.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir stutta svarið við spurningunni að það sé misjafnt eftir hótelum.

„Sum hótelin munu ekki geta það en önnur gætu kannski þraukað. Það yrði þó mjög erfitt fyrir þau öll,“ segir Daníel um stöðuna.

Spurður hvernig efnahagsreikningurinn verður almennt hjá hótelum, eftir þennan storm, segir Daníel að almennt hafi geirinn staðið þokkalega hvað þetta varði. Fjöldi fyrirtækja sé þó talsvert skuldsettur. Staðan sé misjöfn milli hótelrekenda. Sumir eigi t.a.m. húsnæðið en aðrir séu aðeins með reksturinn.

Hótelin meira og minna tóm

Geir Gígja, sölu- og markaðsstjóri Hótel Cabin, Hótel Kletts og Hótel Arkar, segir óvissuna mikla. Alls eru 580 herbergi á hótelunum þremur.

„Staðan er grafalvarleg. Miðað við fjölda afbókana er mjög líklegt að hótelin okkar verði meira og minna tóm næstu einn til tvo mánuði,“ segir Geir. Það sé ekki ljóst hvort nýtingin verði yfir 10% á tímabilinu.

„Hluti af gestum okkar er einstaklingar. Þeir afbóka aðeins seinna og bíða aðeins lengur. Hóparnir eru hins vegar í langflestum tilvikum að afbóka. Ég býst við að staðan sé eins hjá okkur og öllum öðrum. Við bíðum eftir útspili ríkisstjórnarinnar. Það þarf að vera eitthvað mun meira en hefur verið kynnt hingað til. Það að hafa þann kost að setja starfsfólk í 50% starfshlutfall þegar það koma 0% tekjur gerir sáralítið. Það að fresta staðgreiðslu skatta um 50% í einn mánuð gerir enn þá minna. Ferðaþjónustan mun ekki þrauka þetta nema eitthvað meira komi til.“

Erfitt að áætla hlutfallið

Hlutfall endurgreiðslna gæti vegið þungt í rekstri hótelanna.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir erfitt að áætla hlutfall endurgreiðslna. Sum hótel skipti mikið við ferðaskrifstofur og vilji vinna með þeim til að viðhalda jákvæðum viðskiptasamböndum. Önnur séu með margar einstaklingsbókanir en í þeim tilfellum gildi bókunarskilmálar. Loks sé misjafnt hvort hótel bjóði viðskiptavinum upp á að endurbóka gistinguna.

„Breyturnar eru svo margar að vonlaust er að draga heildarályktanir af tölum. Þó er ljóst að skaðinn verður töluverður. Tekjur á næstu mánuðum hverfa líka hjá þeim sem ná að bjóða endurbókanir.“

Nýtingin er á niðurleið

Nýtingin hefur gefið eftir og meðalverð á gistingu lækkað.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var nýting hótelherbergja um 62,2% á landinu öllu í janúar 2017. Hún var til samanburðar 49,1% í janúar í ár. Á höfuðborgarsvæðinu fór hlutfallið úr 82,6% í 66,5% í janúarmánuði.

Samhliða hafa laun í ferðaþjónustu hækkað umtalsvert, ekki síst í hótelgeiranum, og ferðamönnum fækkaði um 300 þúsund milli ára 2018 og 2019 vegna falls WOW air. Nú verður hótelgeirinn fyrir enn þyngra höggi vegna veirunnar.

Gengi krónu gefur eftir

Gengið hefur gefið eftir en við fyrstu sýn ætti þessi þróun að styrkja samkeppnishæfnina.

Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG), segir óvíst hvort og hvernig þetta muni skila sér í rekstrinum.

„Jákvæðu áhrifin af veikingunni eru þau að við erum með mjög mikla sölu í erlendri mynt í bókunum hjá okkur. Það eru einhverjir milljarðar fram í tímann sem sveiflast upp og niður í takt við gengið. Við erum hins vegar löngu búin að læra að þótt staflinn blási út geti hann fallið niður aftur. Það skiptir öllu máli hvert gengið er þegar peningarnir eru innleystir. Það eru ekki að koma inn háar fjárhæðir þessa dagana til að skipta á þessu hagstæða gengi. Allir sem selja langt fram í tímann horfa á hvernig þessi stafli þróast.“

Gríðarlegar afbókanir

Nýtingin næstu mánuði verður langt undir áætlunum.

„Við sjáum gríðarlegar afbókanir. Þær eru að mokast inn á þessum helsta bókunartíma ársins. Við þurftum að færa starfsfólk úr gestamóttöku og setja upp sérstaka bókunardeild til að taka á móti afbókunum því við höfðum ekki undan. Þetta er að deyja út næstu vikurnar. Við munum loka hótelum og reyna að halda þokkalegri starfsemi á tveimur hótelum af sjö. Bandaríkjamenn lokuðu Ameríku og nú ræðir Evrópusambandið um að loka landamærunum og fjöldi þjóða. Þá verður sáralítið eftir. Hótelin verða nánast tóm. Það blasir ekkert annað við.“

Ekki brjótist út taugaveiklun

Stefnir í að margir gististaðir munu ekki lifa samdráttinn af?

„Það er verið að ráðast í aðgerðir til að styðja við lífvænleg fyrirtæki. Það er hins vegar ekki gott fyrir heilbrigt efnahagslíf ef fyrirtækjum sem eru ekki lífvænleg er haldið á floti. Það er mikilvægt að það grípi ekki um sig taugaveiklun og að menn fari ekki í brunaútsölu til að fá eitthvað inn í kassann. Hótelin hafa misjafnlega mikið eigin fé og misjafnlega mikinn styrk og hafa mismunandi uppbyggingu. Sum hótel eru í eigin húsnæði en önnur eru með leigusamninga. Þá er mikilvægt að fasteignaeigendur sýni skilning. Lokað hótel greiðir ekki leigu í langan tíma. Við viljum halda okkar góða fólki í vinnu sem lengst.“

Að sögn Kristófers er horft til þess möguleika sem ríkisstjórnin samþykkti, að bjóða starfsfólki 50% starfshlutfall gegn því að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði 30% af launum og tryggi með því 80% laun, upp að vissri fjárhæð.

„Við höfum greitt gríðarlegar fjárhæðir inn í Atvinnuleysistryggingasjóð í formi tryggingagjalds undanfarin ár. Spurningin er hvort við ættum að færa lágmarkið sem fyrirtækin borga niður í 25% og hafa hlut Atvinnuleysistryggingasjóðs upp í 55%. Það væri þá okkar útfærsla af „dönsku leiðinni“ þar sem stjórnvöld greiða 75% launa og fyrirtækin 25%.

Við höfum líka rætt um að óska eftir heimild til að greiða út orlofið þessa mánuði. Þá bætast u.þ.b. 10% við ráðstöfunartekjur mánaðarins. Með því væri líka hægt að dreifa skaðanum. Það er enda ljóst að fyrirtækin þurfa að mæta þessum 50% launagreiðslum með skuldasöfnun ef hótelin eru tóm. Það hlýtur einnig að leiða til skuldasöfnunar að fresta sköttum og gjöldum.“

Fasteignagjöld íþyngjandi

„Það kostar sitt að eiga fasteignirnar og það má velta fyrir sér aðkomu sveitarfélaga að þessum aðgerðum. Menn hafa verið að þróa svokallaða tekjustreymisaðferð til þess eins að hækka fasteignagjöld enn frekar þar sem húsaleiga er há. Spurningin er hver fasteignagjöldin verða af lokuðu hóteli ef fasteignagjöld byggjast á tekjustreymi. Ég sakna sveitarfélaganna nú þegar allir aðilar virðast vera að snúa bökum saman. Eru þau til viðræðna um lækkun og/eða frestun á fasteignagjöldum? Þetta þurfa að vera margþættar aðgerðir. Viðfangsefnið er svo stórt að það duga engar venjulegar aðgerðir,“ segir Kristófer.

Rætt um að loka hótelum

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir stjórnarfund hjá félaginu í dag.

Á þeim fundi verði rætt um þann möguleika að loka hótelum vegna afbókana í kjölfar kórónuveirunnar.

Það sé ekki búið að taka ákvörðun um hversu mörg hótel verða opin. „Við leigðum Lindina undir sóttkví,“ segir Ólafur og vísar til þess að Sjúkratryggingar Íslands tóku, að beiðni heilbrigðisyfirvalda, Fosshótel Lind við Rauðarárstíg á leigu í lok febrúar. Þar eru 78 herbergi.

„Þetta er að tínast inn og ástandið að verða verra og verra. Menn geta eiginlega ekkert sagt. Staðan breytist dag frá degi,“ segir Ólafur.

Spurður hvort keðjan muni ná að vera með 25% nýtingu, til dæmis fram að júní, segir Ólafur ekki hægt að svara því á þessari stundu.

Hann sé bjartsýnn á gengi ferðaþjónustunnar þegar kórónuveirufaraldurinn verði afstaðinn.

„Við ætlum að lifa þetta af. Það verður brjálað að gera þegar þetta er búið,“ segir Ólafur.

Bergur Rósinkranz, einn eigenda Hótel Fróns á Laugavegi, kvaðst ekki vilja tjá sig um stöðuna. Það hefði ekkert verið ákveðið.

KEA-hótelin munu lifa

Páll L. Sigurjónsson, forstjóri KEA-hótela, sagði félagið hafa lokað Hótel Apóteki tímabundið vegna fækkunar ferðamanna.

Til skoðunar sé að sameina tímabundið rekstur fleiri KEA-hótela í Reykjavík en þau eru alls sjö þar.

„Við erum að hagræða eins og hægt er og með þessu getum við líka tryggt betur mönnun á þeim hótelum sem eru opin,“ segir Páll.

Hann segir KEA-hótelin munu standa þennan storm af sér. Hins vegar þurfi meiri aðgerðir en nú hafa verið kynntar.

„Það er engin launung að margt þarf að koma til svo þetta gangi upp. Það þurfa allir að gera sitt. Hvort sem það er ríkið, bankar, leigusalar, launþegar eða rekstraraðilar,“ segir Páll Sigurjónsson.

355 dagar eru nú liðnir frá falli WOW air. Innan …
355 dagar eru nú liðnir frá falli WOW air. Innan við ári frá þeim viðburði er Icelandair í einni þrengstu stöðu í 83 ára sögu félagsins. mbl.is/Eggert

Eftirspurn hefur þurrkast upp

Flest flugfélög heimsins róa nú lífróður þar sem eftirspurn eftir flugsætum hefur þurrkast upp á undraskömmum tíma. Icelandair Group er þar engin undantekning og þótt lausafjárstaða félagsins sé sterk þornar fjármagnið hratt upp, rétt eins og eftirspurnin. Mikilla tíðinda er að vænta af vettvangi félagsins á komandi dögum.

Margir supu hveljur í liðinni viku þegar IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, lýstu því yfir að iðnaðurinn gæti orðið fyrir allt að 113 milljarða dollara höggi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Í gær gáfu sömu samtök það út að ætlað högg fæli „án nokkurs vafa“ í sér vanmat á stöðunni nú þegar flugmarkaðnum um Norður-Atlantshaf hefði í raun verið skellt í lás. Í komandi viku er gert ráð fyrir að IATA gefi út nýtt mat á þeim áhrifum sem samtökin telja að flugfélögin muni verða fyrir. Þrátt fyrir að það mat liggi ekki fyrir gáfu þau út í gær að þörf væri á stuðningi stjórnvalda sem næmi á bilinu 150 til 200 milljörðum dollara. Myndi slíkur stuðningur fela í sér lausafjárfyrirgreiðslu og opnar lánalínur.

Ekki er ljóst hversu umfangsmikill stuðningurinn verður en nú þegar hafa stjórnvöld víða um heim brugðist við og beint eða óbeint veitt vilyrði fyrir stuðningi til einstaka félaga. Þannig bárust tíðindi af því við lokun markaða í gær að ríkisstjórnir Svíþjóðar og Danmerkur myndu leggja SAS til ábyrgðir sem næmu allt að 3 milljörðum sænskra króna. Jafngildir það tæpum 43 milljörðum íslenskra króna. Staða félagsins hefur versnað mikið að undanförnu en var ekki sterk fyrir. Vegna kórónufaraldursins hefur það hins vegar nýtt sér heimildir til þess að segja tímabundið upp 10 þúsund starfsmönnum en það eru um 90% alls starfsfólks félagsins. Hefur markaðsvirði félagsins fallið um 40% á einum mánuði og stappar nærri að lánafyrirgreiðslan sem stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð hafa nú lofað félaginu jafngildi markaðsvirðinu. Dönsk stjórnvöld eiga í dag 14,2% í SAS en sænska ríkið heldur á 14,8% hlut. Norska ríkið losaði um sinn hlut í félaginu fyrir tveimur árum.

Þær aðgerðir sem sænska ríkið hefur gripið til og stuðningurinn við SAS er hluti af, ná einnig til annarra flugfélaga og greint hefur verið frá því að norska lággjaldaflugfélagið Norwegian Air Shuttle muni geta leitað á náðir þess. Hins vegar eru greiningaraðilar flestir á því máli að félagið, sem lengi hefur glímt við alvarlegan lausafjárskort, muni ekki endast lengi nema með hressilegri innspýtingu frá norska ríkinu. Um veikleika félagsins vitna viðbrögð markaðarins en markaðsvirði þess er nú um 79% lægra en það var um áramót.

Virðast aðgerðirnar gagnvart SAS hafa hreyft við málum og í yfirlýsingu sem Norwegian sendi frá sér undir kvöld í gær að það „vonaðist til þess að til áþekkra aðgerða yrði gripið gagnvart Norwegian í formi lánatrygginga.“

Norwegian hefur fellt niður um 85% af öllum flugferðum sínum á komandi vikum. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur undirstrikað að stuðningur við flugfélög í landinu verði tryggður. Hins vegar virðast ýmsir á því að ríkisvaldið bregðist of hægt við og lét Jonas Gahr Stöhre, leiðtogi Norska verkamannaflokksins, í það skína í gær þegar hann kallaði eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda sem fælu í sér líflínu til handa fyrirtækinu sem væri í raun á fallanda fæti. Að sögn heimildarmanna sem Financial Times hefur rætt við hafa viðræður innan norska stjórnkerfisins um mögulega þjóðnýtingu flugfélagsins átt sér stað en ekkert hefur verið staðfest af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnar Noregs í því efni.

Bandarísku félögin veikburða

Stóru bandarísku flugfélögin sem sinna flugi til Evrópu hafa orðið harkalega fyrir barðinu á ferðabanninu sem nú er í gildi milli heimsálfanna. Hefur hlutabréfaverð félaganna verið í frjálsu falli, floti þeirra að stórum hluta fastur á jörðu niðri og eftirspurn eftir þjónustu félaganna hefur í raun „þurrkast upp“ á örfáum sólarhringum.

Samtök stærstu flugfélaga Bandaríkjanna hafa fullyrt að félögin muni ekki halda velli út árið nema til komi myndarlegur stuðningur stjórnvalda. Hafa þau einnig, samkvæmt heimildum Wall Street Journal, sagt að stuðningurinn þurfi að felast í 50 milljarða dollara framlagi, jafnvirði ríflega 7.000 milljarða króna. Helmingurinn þurfi að felast í beinum styrkjum og annað eins í formi lánafyrirgreiðslu. Á sama tíma eru sömu félög, m.a. Delta og American Airlines í viðræðum við bankastofnanir um gríðarlegar lánveitingar til að fleyta þeim yfir erfiðasta hjallann.

Enn liggur ekki fyrir í hverju stuðningur Bandaríkjastjórnar muni felast. Donald Trump hefur verið skýr með að hann verði veittur. „Við munum bakka flugfélögin 100% upp.“ Sagði hann opinberlega í fyrradag en það er ekki á vísan að róa með efndir úr þeirri áttinni þegar veður skipast fljótt í lofti.

Icelandair ber sig vel

Yfirlýsingar stjórnenda Icelandair Group hafa verið með öllu hófsamara móti en flestra stjórnenda þeirra flugfélaga sem sinna flugferðum yfir Atlantshafið. Hafa yfirlýsingar félagsins tekið mið af stöðunni á hverjum tíma en ákvarðanir um niðurskurð á umsvifum hafa verið mun smærri í sniðum en hjá flestum samkeppnisaðilum. Morgunblaðið greindi frá því á mánudag að áætlanir sem félagið hefði kynnt stjórnvöldum um liðna helgi bentu til þess að samdráttur í umsvifum Icelandair yrði um 25-35% á komandi mánuðum. Ljóst er hins vegar að ferðabann það sem Evrópusambandið hefur sett á setur þær áætlanir allar úr skorðum og sennilegt verður að teljast að á næstu dögum muni félagið þurfa að leggja stærstum hluta flota síns sem nú telur 22 Boeing 757-200/300-vélar, 4 Boeing 767-300- breiðþotur og tvær Boeing 737-800- vélar sem félagið hafði tekið á leigu áður en ósköpin dundu yfir. Þá hafði félagið ætlað að taka að nýju í þjónustu sína tvær 757-200-vélar sem ætlunin var að leggja. Nær óhugsandi er að þörf verði fyrir þær vélar á komandi mánuðum. Sennilegra er að breiðþotum félagsins og stórum hluta 757-vélanna verði lagt en að notast verði í einhverjum mæli við 737-800-vélarnar sem eru minni að vöxtum og tiltölulega hagkvæmar í rekstri. Hinsvegar á eftir að koma í ljós að hversu miklu marki félagið muni nýta vélarnar til fraktflutninga sem enn er opið fyrir, bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.

Lausafé Icelandair

Forstjóri Icelandair Group hefur bent á að lausafjárstaða félagsins sé sterk og að í raun gæti félagið haldið velli án tekna í þrjá mánuði. Samkvæmt nýjustu tilkynningu félagsins um lausafjárstöðuna segir að hún sé svipuð og um áramót en þá stóð hún í 39 milljörðum króna. Hins vegar viðurkennir félagið að atburðir síðustu daga muni hafa verulega neikvæð áhrif á lausafjárstöðuna á næstunni.

ViðskiptaMogginn hefur óskað upplýsinga frá Icelandair Group um hvernig lausafé félagsins sé samsett en svarið hefur verið að félagið gefi það ekki upp.

Sérfræðingar sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við segja að hluti fjárhæðarinnar sé opnar lánalínur frá fjármálastofnunum og þá sé talsverður hluti fjárhæðarinnar í raun skuld við viðskiptavini félagsins. Þannig sitji félagið á fjármunum vegna flugferða sem búið er að greiða fyrir þótt ekki sé búið að afhenda vöruna, þ.e. fljúga viðskiptavininum milli áfangastaða.

Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hversu stór hluti leiðakerfis Icelandair muni lamast á komandi vikum en þó má gera ráð fyrir að röskunin verði gríðarleg. Því má um leið búast við því að þær bókanir sem búið var að ganga frá á yfirstandandi tímabili komi til endurgreiðslu þegar ferðirnar verða felldar niður og getur það þurrkað upp óþægilega stóran hluta lausafjárins á komandi vikum.

Þörf á hressilegri innspýtingu

Sérfræðingar sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við segja að Icelandair Group þurfi á utanaðkomandi stuðningi að halda á komandi vikum til þess að tryggja rekstrargrundvöll sinn, ekki síst þar sem flest bendi til þess að áhrifa kórónuveirunnar muni gæta lengur en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna. Þar er helst horft til einhverskonar stuðnings af hálfu ríkisvaldsins en einnig núverandi hluthafa félagsins.

Hafa þær hugmyndir verið viðraðar að núverandi hluthafar leggi félaginu til aukið hlutafé. Forsvarsmenn lífeyrissjóða sem eiga verulegra hagsmuna að gæta af málinu hafa staðfest að formlegar viðræður þar um hafa ekki átt sér stað en þeir gera frekar ráð fyrir því en ekki að haft verði samband við hluthafana í þessu skyni. Kynni fyrirgreiðsla af þeirra hálfu að vera bundin því skilyrði að ríkið kæmi að málum, mögulega sem hluthafi eða með öðru móti.

Kjarasamningar flækja málin

Þótt forsvarsmenn Icelandair Group hafi átt fundi með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands og lykilstarfsmönnum í ráðuneytum sem málið varðar hafa ráðamenn ekki viljað staðfesta að flugfélagið hafi leitað á náðir stjórnvalda. Hefur einfaldlega verið sagt að um „upplýsingafundi“ hafi verið að ræða. Á sama tíma hafa forsvarsmenn félagsins átt í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og Félag íslenskra atvinnuflugmanna en yfirvofandi niðurskurður á umsvifum félagsins mun óhjákvæmilega hafa stórkostleg áhrif á félagsmenn félaganna tveggja. Hefur forstjóri Icelandair staðfest að á þessum fundum hafi verið rætt um með hvaða hætti starfsmenn og félagið geti leitað leiða til að létta byrðum tímabundið af félaginu til þess að draga úr útstreymi lausafjár af reikningum þess. Raunar hafa flugmenn nú þegar stigið slíkt skref. Þannig náðist samkomulag um það á síðasta ári, þegar ljóst var orðið að kyrrsetning Boeing 737-MAX-véla félagsins drægist á langinn, að launahækkun sem taka átti gildi 1. október 2019 yrði frestað til 1. apríl næstkomandi og að kjarasamningurinn sem þar var undir myndi gilda fram í september 2020 í stað til áramótanna síðustu eins og gengið var út frá fram að því.

Viðræður um frekari breytingar á gildandi samningum flugstéttanna eru afar viðkvæmar. Hafa hluthafar og sérfræðingar sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við bent á að samningar við flugfreyjur og flugmenn hafi á síðustu árum reynst félaginu mjög íþyngjandi í sífellt harðnandi samkeppni við lággjaldaflugfélög á borð við Norwegian og Wizz Air. Því sé óvíst hvort hluthafar muni leggja félaginu til aukið fjármagn að óbreyttum þessum samningum. Hafa nokkrir viðmælendur blaðsins bent á að jafnvel væri betra að endurreisa félagið að loknu gjaldþroti, ef það mætti verða til þess að félagið losnaði undan þeim kjarasamningum sem það hefur fylgt á undanförnum áratugum. Heimildir ViðskiptaMoggans innan úr Icelandair Group herma að allar sviðsmyndir séu nú uppi á borðum. Öllum sé ljóst að félagið rói nú lífróður eins og flest önnur flugfélög í heiminum. Mikilvægt sé að tryggja lausafjárstöðu félagsins til skamms tíma litið en einnig að tryggja sveigjanleika þess til þess að sækja fram þegar rofar til á markaðnum. Mörg tækifæri muni skapast í því umróti sem nú hefur skapast og það í meira lagi óvænt.

MAX-vélar Icelandair sjást hér kyrrsettar á Keflavíkurflugvelli áður en þær …
MAX-vélar Icelandair sjást hér kyrrsettar á Keflavíkurflugvelli áður en þær voru fluttar í vetrargeymslu. mbl.is/Hari
mbl.is