Troða margfalt í farþegavélarnar

Steinn Logi Björnsson, forstjóri flugfélagsins Bláfugls, sem starfrækir sex fraktflutningavélar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að tiltölulega lítil breyting hafi orðið á starfsemi félagsins þrátt fyrir hið fordæmalausa ástand sem nú varir. „Ég get ekki sagt að ég finni fyrir mikilli aukningu í fraktfluginu hjá okkur, en heldur ekki minnkun,“ segir Steinn Logi.

Hann segir að það sem jafni út málið sé að minnkun sé í flutningi á ferskum fiski til Evrópu, en spurn eftir hágæðafiski hafi dregist saman í takt við lokanir veitingahúsa. „Á móti kemur aukning í einhverjum veitingahúsum, en í heildina finnum við ekki fyrir aukningu þar.“

Steinn Logi Björnsson
Steinn Logi Björnsson mbl.is/Árni Sæberg

Steinn segir að meiri aukning sé í flutningi vestur um haf. „Ég held að þessar lokanir veitingahúsa hafi mikil áhrif á flutning á ferskum fiski almennt. Svo er engin minnkun í hraðsendingum, en flutningar, eins og fyrr sagði, til og frá Íslandi, standa í stað hjá okkur.“

Mikil spurn er í heiminum í dag eftir hvers konar leiguflugi. Mikið er óskað eftir flugvélum til að flytja lyf, læknisbúnað og þvíumlíkt. „Við sinnum því líka.“ Spurður að því hvort Bláfugl hafi nægar vélar til að sinna slíkum aukaverkefnum segir Steinn Logi að vélarnar séu í nokkuð föstum skorðun, en af því að Bláfugl þjónusti hraðsendingarfyrirtækin, eins og FedEx, UPS og slík, skapist rými í vélunum um helgar. „Þau fyrirtæki fljúga almennt ekki um helgar, og þá verður til pláss í vélunum. Einnig ef vélar eru í dagstoppi, þá erum við að bjóða í frakt í leiguflugi.“ Spurður almennt um áskoranir dagsins í dag, segir Steinn Logi að þær felist ekki í skorti á eftirspurn, heldur því að áhöfn og flugvirkjar verði ekki innlyksa og veikist í löndunum sem Bláfugl starfar í. „Það er ógnin á hverjum degi. Að tryggja að nægt fólk sé til staðar þar sem flugvélarnar eru.“

Steinn segist hafa þurft að gera ýmsar ráðstafanir vegna þessa. „Við höfum þurft að flytja fólk á milli staða til að leysa af. Við erum til dæmis með tvo ítalska flugmenn sem eru innlyksa á Ítalíu. Við þurfum að fylla í þeirra skarð með öðru fólki, sem er þá staðsett annars staðar. Við erum með sex vélar í gangi í Evrópu, og því er þetta dálítið púsl þessa dagana.“

Spurður um fréttir þess efnis að flutningar á ferskum fiski til Boston í Bandaríkjunum séu mögulega að dragast saman, segir Steinn Logi að Boston sé eins konar miðstöð fyrir dreifingu, og því snúist það ekki um eftirspurnina í Boston sem slíkri.

Skoða flug frá Kína

Nú heyrast fréttir um að markaðir í Asíu séu að lifna við eftir að hafa verið lokaðir í meira en tvo mánuði. Steinn segir að mikil spurn sé eftir lækningavörum frá Kína þessa dagana. „Kannski juku þeir framleiðslu á slíkum vörum þegar faraldurinn stóð sem hæst, en það er mikil eftirspurn eftir flutningum til að koma þessum vörum til Evrópu þessi dægrin. Við höfum jafnvel boðið í svoleiðis flutninga, og það kemur til greina að senda vélar til Kína að sinna slíku flugi.“

Tímarnir eru óvenjulegir eins og Steinn Logi ítrekar, sem kalli á óvenjulegar lausnir. „Við höfum til dæmis flogið frá Belgíu til Brasilíu, með viðkomu á Íslandi, í Halifax í Kanada, og Santo Domingo í Dóminíska lýðveldinu. Þetta er ekki hefðbundið, en kemur upp í svona ástandi eins og er núna.“

Spurður um þróunina næstu tvær vikur segir Steinn Logi að á meðan farþegaflugið liggur niðri að stórum hluta, og veiran geisar og hafi ekki náð hámarki, muni spurn eftir fraktflugi halda áfram. „Menn eru að verða uppiskroppa með ólíka hluti á ólíkum tímum. Þá grípa menn til neyðarráðstafana í flutningum, sem er þá oftast flug. Þegar mikið liggur við er tíminn dýrmætari en peningar.“

Ágætiseftirspurn til Ameríku

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri fraktflutningafélagsins Icelandair Cargo, segir að ágætis spurn sé eftir flutningi til Ameríku sem stendur. Þar sé ekkert sem komi á óvart þessa dagana. „Okkar tilfinning er að vikan verði svipuð í flutningum til Bandaríkjanna og verið hefur síðustu vikur,“ segir Gunnar við ViðskiptaMoggann. Hann segir að enn sé til dæmis töluverð spurn eftir ferskum fiski í Bandaríkjunum, og meiri en í Evrópu.

Hann segir að flóknari staða sé með flutninga til Evrópu en til Bandaríkjanna, og aðstæður séu mismunandi eftir löndum. Sums staðar sé í gangi útgöngubann, sem trufli flutninga. Þá sé Frakkland til dæmis að verða fyrir töluverðu höggi. Kaupendur á t.d. fiski í Frakklandi notist mikið við sjóflutninga og þannig hafi það ekki eins mikil áhrif á flutninga Icelandair Cargo inn til Evrópu. „Við flytjum enn töluvert af fiski inn á Evrópu en magnið er þó minna en í venjulegu árferði. Innflutningur til Íslands er hins vegar í fullum gangi hjá okkur og mikil eftirspurn er eftir ýmsum vörum sem tengjast ástandinu, eins og til dæmis lækningavörum sem þurfa að komast hratt til landsins.“

Troða í farþegaþoturnar

Gunnar segir að ljóst sé að eftir því sem farþegaflug minnki hjá Icelandair fækki þeim möguleikum sem Icelandair Cargo geti notað í sínum flutningum. „Við höfum verið að flytja meiri frakt en venjulega í farþegafluginu sem enn er í gangi til Ameríku til að mæta eftirspurn þar. Við erum að troða allt að tuttugu tonnum af frakt í Boeing 767-breiðþoturnar, og nýtum þá pláss sem annars væri notað undir farangur fólks, enda er mun færra fólk í vélunum en áður. Þá erum við að ná að setja 10 tonn af frakt í Boeing 757-vélarnar. Þetta er óvenjuleg staða, en þetta er tvöfalt og þrefalt magn í farþegavélum á við það sem gerist og gengur í venjulegu ástandi. Við höfum svo bætt reglulega inn sérstöku fraktflugi til Boston í Bandaríkjunum til að flytja það sem kemst ekki í farþegakerfið.“

Spurður að því hvort til greina komi að fljúga með frakt í farþegavélum án farþega, segir Gunnar að allt komi til greina í því ástandi sem ríkir. Sem stendur séu farþegavélarnar notaðar eins og verið hefur, en ef til þess kæmi að flogið yrði án farþega yrði það aðeins gert ef það borgaði sig. „Við getum ekki verið að borga með þeim flutningum. Þetta er þegar byrjað í einhverjum mæli í flutningum á Norður-Atlantshafinu, og er í skoðun hjá öllum flugfélögum í dag. Á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshafið hefur framboð dregist verulega saman vegna þess að farþegaflug hefur dregist svo mikið saman. Það þarf að koma vörunum yfir með einhverjum hætti.“

Gunnar Már Sigurfinnsson
Gunnar Már Sigurfinnsson

Gunnar nefnir dæmi af norskum eldislaxi. Hann sé í dag lokaður inni í töluverðum mæli, og Norðmenn leiti leiða til að koma laxinum á markað. „Þeir hafa spurt okkur um lausnir í þessum efnum, og myndu þá vilja borga álag á flutningsverðið til að koma vörunni á markað. Við erum að skoða það þessa dagana, en engin ákvörðun hefur verið tekin. Allt snýst þetta um að detta ekki út af markaði. Því er lögð ofuráhersla á að koma fiski á markað, hvað sem gengur á, bara til að vera á markaði þar sem enn er eftirspurn. Með því að halda þér inni á markaði eru meiri líkur á að þú haldir þinni stöðu þegar vandamálið vegna kórónuveirunnar er um garð gengið og hlutirnir orðnir eðlilegir á ný.“

Þetta á einnig við um íslenskan fisk, að sögn Gunnars. „Við þurfum að sýna öllum fram á að við komum vörum á markað hver sem staðan er. Það er ákveðið gæðamerki að geta það, hvað sem á bjátar. Það styrkir ímynd þeirrar vöru sem við erum að selja, að hún komist á markað við hvaða aðstæður sem er. Við höfum áður tekist á við erfiðar og óvæntar markaðsaðstæður, eins og þegar gaus í Eyjafjallajökli. Þá varð það okkar aðalsmerki að við komum alltaf vörunni á markað, sama hvað gekk á. Við finnum í samtölum við okkar viðskiptavini, að þeir kunna að meta það að við leggjum allt undir.“

Horfa meira á nærumhverfið

Um önnur tækifæri við núverandi aðstæður, eins og til dæmis flutninga frá Asíu, eins og Steinn Logi bendir á hér á undan, segir Gunnar að margir hafi haft samband við Icelandair Cargo vegna slíkra flutninga. Hingað til hafi félagið þó ekki metið þau verkefni sem nógu fýsileg. „En við skoðum öll tækifæri sem geta gefið okkur einhvern ábata. Við horfum þó enn um sinn mest á nærumhverfið og setjum hagmsuni þeirra viðskiptavina sem vinna með okkur allt árið í forgang, en eins og ástatt er þá geta hlutirnir breyst mikið frá degi til dags.“

Einhverjar eftirspurnarbreytingar

Stefán H. Stefánsson, forstjóri skipafyrirtækisins Cargow, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að flutningar fyrirtækisins gangi ágætlega nú á þessum óvissutímum. Engar sérstakar takmarkanir séu í gangi. „Það eru einhverjar eftirspurnarbreytingar og annað slíkt. Það hafa til að mynda verið tafir á flutningum til og frá Kína, og Asíu almennt, en á tímabili var allt stopp þar. En það er að færast í betra horf. Það er hinsvegar að hægjast á í Evrópu nú. Tafirnar felast í hlutum eins og tilfærslum á gámum, flutningum á tómum frystigámum á rétta staði, lestun, losun og áframflutningi,“ segir Stefán.

Cargow hefur þá sérstöðu hér á landi að það siglir eingöngu frá Reyðarfirði, en langstærsti viðskiptavinur félagsins er Fjarðaál á Reyðarfirði.

Stefán H. Stefánsson
Stefán H. Stefánsson

„Álið frá Fjarðaáli er okkar aðalútflutningsvara, en við flytjum einnig aðra frakt, svo sem fisk í einhverjum mæli. Við erum með tvö skip í siglingum milli Íslands og Rotterdam í hverri viku og þrjú milli Rotterdam og Noregs, til Íslands flytjum við inn ýmis aðföng fyrir álverið, auk þess sem við flytjum líka inn töluvert af aðföngum fyrir aðra.“

Meiri áhrif í Noregi

Spurður að því hvort minna framboð af plássi í flugfrakt frá landinu, vegna aflagðra farþegaflutninga, hafi áhrif á eftirspurnina hjá Cargow, segist Stefán ekki verða var við það. „Það nær ekki mikið til okkar. En aftur á móti finn ég að það hefur áhrif í Noregi, en þar erum við með þrjú skip í siglingum eftir ströndinni. Við erum að taka þar flutninga sem fóru áður með bílum eða flugi.“

Auk starfsmanna í áhöfn skipanna og þeirra sem sinna skiparekstrinum starfa 10 starfsmenn hjá Cargow, langflestir í Hollandi. Stefán segist að endingu búast við að næstu vikur verði svipaðar í starfseminni og nú er, en lögð sé áhersla á að fara í einu og öllu að fyrirmælum yfirvalda.

Efla samskipti við skrifstofurnar

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa, segir í skriflegu svari að allar flutningsleiðir Samskipa á sjó og landi séu opnar. „Við viljum þó benda viðskiptavinum okkar á að bóka tímanlega, því tafir hafa myndast við ákveðin landamæri. Með lengri fyrirvara aukast líkur á að teymið okkar finni leiðir sem gangi upp,“segir Birkir.

Hann segir að fyrirtækið hafi eflt samskipti sín við skrifstofur sínar um allan heim í þeim tilgangi að tryggja viðskiptavinum sem allra bestu þjónustu.

Huga að öryggi starfsfólks

Spurður að því hverjar væru helstu áskoranirnar fyrir skipafélag eins og Samskip í því ástandi sem skapast hefur, segir Birkir að þær séu að huga að starfsfólkinu og tryggja órofna starfsemi. Unnið hafi verið í því að minnka áhættu á að starfsfólkið smitist frá fyrstu dögum í marsmánuði. Mikil áhersla hafi verið lögð á að tryggja öryggi og órofna starfsemi á skipum sem og vöruhúsum og hafnarsvæðum strax í byrjun. „Núna ná aðgerðir okkar til allra starfsstöðva og starfsmanna okkar, en þær eru í stöðugri endurskoðun.“

Birkir Hólm Guðnason
Birkir Hólm Guðnason

Hann bætir við að Samskip sé háð þjónustu í höfnum erlendis og þar sé alltaf sá möguleiki fyrir hendi að starfsemi skerðist, eða hægist tímabundið vegna COVID-smita. „Við þurfum í auknum mæli að treysta á eigið starfsfólk varðandi viðhald á skipum og tækjum þar sem Samskip hafa takmarkað mjög svo aðgengi þjónustuaðila.“

Birkir segir að á sama tíma sé verið að takast á við áskoranir í rekstrinum, en þær felist í að reka fast-kostnaðar-framleiðslukerfi, þegar skyndilega verði umtalsverð magnminnkun, eins og líklega sé fram undan.

Spurður hvort fragt sem annars færi í flugi, leitaði til þeirra, segir Birkir ekki svo vera, enda er það magn sem flutt er með flugvélum aðeins lítið brot af því sem er flutt með skipum. Því verði skipaflutningar ekki mikið varir við magnsveiflur í flugi.

Fækkuðu um eitt skip

Um það hvort einstaka áfangastaðir eða siglingaleiðir hefðu orðið fyrir meiri áhrifum en aðrar vegna ástandsins, segir Birkir að eins og tilkynnt hafi verið um í síðustu viku, þá hafi verið gripið til tímabundinna aðgerða í siglingakerfinu til að bregðast við óvissunni sem fram undan er. „Við erum að fækka um eitt skip og breyta siglingaleiðum á öðrum skipum.“

Í nýrri siglingaáætlun sinna fjögur skip vöruflutningum á áfangastaði á landsbyggðinni og í Evrópu, en siglingar samkvæmt nýrri áætlun hefjast 6. apríl næstkomandi.

Lokanir ná ekki til vöruflutninga

Rétt eins og hjá Samskipum ganga flutningar samkvæmt áætlun hjá Eimskip. Vilhelm Már Þorsteinsson segir í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans að allar siglinga- og dreifileiðir félagsins séu opnar, þrátt fyrir lokun landamæra víða. Þær lokanir nái hinsvegar ekki til vöruflutninga. Þó hafi verið tafir við ákveðin landamæri á meginlandi Evrópu og segir Vilhelm að fyrirtækið hafi ráðlagt viðskiptavinum að huga að bókunum með lengri fyrirvara en áður. „Sama erum við farin að sjá í flutningum milli Kanada og Bandaríkjanna. Við höfum dæmi um vörur sem hefur alla jafna verið ekið á milli landanna sem núna fara meðal annars í okkar skip þar á milli. Innanlands hefur allt gengið samkvæmt áætlun þó að verið sé að vinna við erfiðari skilyrði en oft áður t.d. með tilliti til afhendingar á vöru, samskipta milli fólks og slíks,“ segir Vilhelm.

Spurður sérstaklega um áskoranir í ástandi, eins og því sem nú er í heiminum, segir Vilhelm að þær séu margar. Aðgerðir miði að því að tryggja öryggi starfsfólks og tryggja áframhaldandi þjónustu.

Meðvituð um hlutverk sitt

„Við erum mjög meðvituð um hlutverk okkar sem mikilvægs innviðafyrirtækis í vöruflutningum til og frá landinu, dreifingu innanlands sem og í vöruhúsastarfsemi og það sama á við í Færeyjum. Við erum með reynslumikið fólk sem hefur tekist að finna flutningalausnir þegar áskoranir hafa komið upp. Hlutirnir breytast hratt, við erum með skip siglandi víða og reglur mismunandi milli landa svo við erum að fylgjast mjög vel með því til að tryggja afhendingaröryggi. Einnig erum við með 56 skrifstofur í 18 löndum og mismunandi reglur gilda í hverju landi. Það er gaman fyrir mig sem stjórnanda að sjá hversu vel hefur tekist að tengja saman okkar breiða net skrifstofa til að halda flutningakeðjunni gangandi í þessum afar sérstöku aðstæðum.“

Vilhelm Þorsteinsson
Vilhelm Þorsteinsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Að öðru leyti segir Vilhelm að félagið glími við sömu áskoranir og aðrir, að takmarka samskipti fólks, virða samkomubönn o.s.frv. „Flest af okkar fólki sem getur unnið heima er að vinna heima hvar sem litið er í starfseminni sem hefur gengið ótrúlega vel með hjálp nútímatækni.“

Spurður um breytingar á einhverjum áfangastöðum eða siglingaleiðum vegna ástandsins segir Vilhelm að engar breytingar hafi verið gerðar enn þá, en unnið sé í sviðsmyndagreiningum, til að hægt sé að taka ákvarðanir og bregðast við breyttum aðstæðum þar sem gert er ráð fyrir að það verði tímabundinn samdráttur í magni. „Við gerum það í góðri samvinnu við viðskiptavini okkar.“

mbl.is