Skytturnar sem drápu yfir 600 óvinahermenn

Ljósmynd/Bundesarchiv

Nöfnin Josef Allerberger og Matthäus Hetzenauer hafa í dag takmarkaða merkingu fyrir flesta. Á tímum seinni heimsstyrjaldar voru nöfnin þó vel þekkt meðal hermanna Þriðja ríkisins og höfðu andstæðingar þeirra í Sovétríkjunum vafalaust heyrt af grimmilegum verkum þeirra á Austurvígstöðvunum. Í sameiningu bera þeir ábyrgð á dauða yfir 600 sovéskra hermanna á um tveggja ára tímabili. Ýmislegt er líkt með þeim Josef og Matthäus; Báðir eru þeir fæddir í Austurríki í desembermánuði árið 1924, annar þeirra á Þorláksmessu en hinn á aðfangadag jóla. Báðir voru þeir sendir á Austurvígstöðvarnar og tilheyrðu Gebirgsjäger, fjallahersveit Þriðja ríkisins. Þá lifðu þeir báðir styrjöldina, unnu fyrir sér sem smiðir að stríði loknu og dóu hárri elli.

Matthäus Hetzenauer fæddist 23. desember 1924 í fjallaþorpinu Brixen im Thale í norðurhluta Austurríkis. Foreldrar hans, Simon og Magdalena, voru bændur sem lifðu á landinu, en Simoni er lýst sem góðri skyttu og veiðimanni. Heimildir segja Matthäus snemma hafa lært skotfimi og meðhöndlun riffla. Sautján ára gamall var Matthäus kallaður til herþjónustu og sendur til liðs við 140. fjallaherfylki í Kufstein í Austurríki. Helsta hlutverk herfylkisins á þeim tíma var að verja suðurlandamæri Þýskalands gegn árásum og styðja við aðgerðir þýska hersins á Austurvígstöðvunum. Í janúar 1943 hlaut hann þjálfun á sprengjuvörpur og stórskotaliðsfallbyssur auk þess sem áhersla var lögð á fjallahernað í þjálfuninni. Yfirmenn Matthäus eru svo sagðir hafa tekið eftir óvenjugóðum riffilhæfileikum og sendu hann í kjölfarið í þjálfun til leyniskyttu í mars 1944. Um fimm mánuðum seinna var hann kominn á Austurvígstöðvarnar, vopnaður riffli af gerðinni Karabiner 98k.

Matthäus Hetzenauer.
Matthäus Hetzenauer. Ljósmynd/Wikipedia.org

Matthäus mætti vopnuðum sveitum Sovétmanna í Karpatafjöllum, Ungverjalandi og Slóvakíu og eru fyrstu skráðu aðgerðir hans í ágúst 1944 í Karpatafjöllum. Þjóðverjar lögðu þá allt kapp á að hægja á og trufla sókn Rauða hersins inn í Þýskaland og féll það í hlutverk Matthäus að vernda fjallastórskotaliðssveitir gegn daglegum árásum frá leyniskyttum og vélbyssusveitum Sovétmanna. Hin tvítuga skytta Þjóðverja einbeitti sér helst að yfirmönnum í aðgerðum sínum. 

„Ég varð að skjóta yfirmenn og skyttur því okkar eigin sveitir höfðu hvorki mannafla né skotfæri til að takast á við óvininn án þessarar hjálpar,“ er haft eftir Matthäus í æviminningum hans. Hann er sagður hafa sýnt af sér mikið hugrekki og fór ósjaldan inn fyrir línu óvinarins til að nálgast mikilvæg skotmörk sín. Þá er þess sérstaklega getið í heimildum að Matthäus hafi eitt sinn hæft óvin á 1.100 metra færi.

Í nóvember 1944 hlaut Matthäus alvarleg höfuðmeiðsl í kjölfar stórskotaliðsárásar. Hann sinnti þó áfram herþjónustu, eða allt þar til hann var handsamaður af sveitum Rauða hersins í maí 1945 og sendur í fangabúðir. Tímabilið ágúst 1944 til maí 1945 er Matthäus með 345 staðfest dráp, eða meira en eitt á dag. Dæmi eru um að sovéskar leyniskyttur séu með hærri tölu en Matthäus, en hann er aftur á móti með hæstu tölu í röðum Þjóðverja og eru öll drápin gerð á einungis tíu mánaða tímabili. Fyrir störf sín í þýska hernum hlaut Matthäus járnkross af annarri gráðu, viðurkenningu fyrir að hafa særst í átökum, árásarmerki fótgönguliða í silfri, heiðursmerki leyniskyttna í gylltu og riddaragráðu járnkrossins.

Árið 1950 fékk Matthäus frelsi sitt á ný og fluttist þá aftur heim til Austurríkis. Þar vann hann fyrir sér sem smiður og kvæntist eiginkonu sinni Maríu. Matthäus Hetzenauer lést 3. október 2004, 79 ára að aldri.

Faldi sig á bak við regnhlíf

Josef Allerberger fæddist 24. desember 1924 í fjallasvæðinu Steiermark í suðurhluta Austurríkis. Faðir hans var smiður en lítið er vitað um móðurina. Átján ára gamall var Josef kallaður til herþjónustu og sendur til liðs við 144. fjallahersveit. Hann hlaut þjálfun sem vélbyssuskytta og hóf feril sinn á Austurvígstöðvunum sem slíkur í júní 1943. Þegar Josef, sem gjarnan var kallaður Sepp af félögum sínum í hernum, tók þátt í átökum í borginni Stavropol í suðvesturhluta Rússlands hlaut hann skotsár á hendi og var í kjölfarið sendur á sjúkrastöð fjarri víglínunni. Þar komst hann fyrst í kynni við sovéskan riffil af gerðinni Mosin Nagant 91/30 sem fallið hafði í hendur Þjóðverja. Riffilinn tók hann með sér á vígvöllinn og notaði til að drepa 27 sovéska hermenn. Hæfni hans vakti athygli yfirmanna og í kjölfarið var hann sendur í leyniskyttuþjálfun. Þýski herinn úthlutaði honum riffil af gerðinni Karabiner 98k en ást Josefs á Mosin-rifflinum var sterk og átti hann eftir að fylgja honum út stríðið. 

Skotfimi Josefs var ekki það eina sem vakti athygli á vígvellinum. Hann nýtti sér einnig óvenjulega aðferð við að fela sig. Til þess notaði hann gamla regnhlíf sem búið var að rífa vatnsdúkinn af en í hans stað var búið að þræða gróður og annan felubúnað á víravirkið. Þegar kom að því að fela sig opnaði Josef hlífina og kom sér fyrir handan hennar með riffilinn. Þessi aðferð, þó óvenjuleg sé, er sögð hafa verið nokkuð gagnleg og um leið hægt að aðlaga hlífina að fjölbreyttu gróðurfari. 

Josef Allerberger.
Josef Allerberger. Ljósmynd/Wikipedia.org

Í æviminningum Josefs er sögð saga af því þegar þýskar hersveitir voru í varnarstöðu við árfarveg innan landamæra Sovétríkjanna. Nótt eina sóttu sovéskar sveitir fast að þeim og náðu að koma sér fyrir í skotgröfum þaðan sem þeir gátu herjað á Þjóðverjana. Til að bregðast við ákváðu Þjóðverjar að setja af stað hóp manna til að endurheimta skotgröfina en sóknin gekk illa, Sovétmenn voru í góðri stöðu og virtust stjórnað af festu. Liðþjálfi er þá sagður hafa hnippt í Josef og bent honum á yfirmann andstæðinganna sem þá var með stóra og mikla loðhúfu á höfði. Josef mundaði riffilinn, hlóð hann með sprengikúlu og beið færis. Við hlið hans var liðþjálfinn og fylgdist með Sovétmönnum í gegnum sjónauka sinn. Skyndilega birtist loðhúfan á ný og Josef þrýsti þétt á gikkinn. Augnabliki seinna sáu þeir félagar hvar loðhúfan sprakk eins og melóna. Ringulreið og óstjórn tók völdin í skotgröfinni og þýskir hermenn lögðu upp í sókn. Eru Sovétmenn svo sagðir hafa verið sigraðir á skömmum tíma.

Josef er með 257 staðfest dráp á Austurvígstöðvunum. Fyrir störf sín í þýska hernum hlaut hann járnkrossinn af fyrstu og annarri gráðu, árásarmerki fótgönguliða, viðurkenningu fyrir að hafa særst í átökum, heiðursmerki leyniskyttna í gylltu og riddaragráðu járnkrossins. Að stríði loknu fluttist hann aftur heim til Austurríkis þar sem hann, líkt og faðir hans forðum, vann fyrir sér sem smiður. Josef Allerberger lést 2. mars 2010, 86 ára að aldri.

Leyniskytturnar Matthäus Hetzenauer og Josef Allerberger eru samtals með 602 staðfest dráp á Austurvígstöðvunum. Sumar heimildir segja þá félaga hafa grandað mun fleirum úr röðum óvinarins, eða hundruðum til viðbótar. Það eru þó ekki staðfestar tölur.

Skytta úr röðum sveita SS sést hér í skotstöðu. Myndin …
Skytta úr röðum sveita SS sést hér í skotstöðu. Myndin er tekin í Sovétríkjunum. Ljósmynd/Bundesarchiv

 

mbl.is