Stolt af því að þrauka

Ljósmynd/Guy Furrow

Flest okkar sem komin eru á miðjan aldur eða yfir höfum sungið með og jafnvel dillað okkur við kraftmikla tónlist Blondie, með söngkonuna Debbie Harry í fararbroddi. Hver man ekki eftir lögum eins og Call Me, Rapture, The Tide Is High, og Heart of Glass? Þessi lög og fleiri Blondie-lög fylltu reykmettað loftið í Hollywood í gamla daga og trylltu lýðinn hér á landi, sem og víða um heim.

Debbie Harry var og er alltaf töff týpa; hún fór eigin leiðir í klæðaburði og lagði línur í tísku sem tónlist. Hún hefur lifað tímana tvenna en bandið sló fyrst í gegn á áttunda áratug síðustu aldar og er enn að spila fyrir áhorfendur sem fá ekki leið á Blondie.

Debbie, sem er 76 ára en lítur út fyrir að vera um fimmtugt, er sannarlega íkon í tónlist. Hún gaf sér tíma í vikunni til að spjalla í síma við blaðamann sem sló á þráðinn yfir hafið, en von er á Debbie hingað í næstu viku í boði kvikmyndahátíðarinnar RIFF. Hún mun verða viðstödd frumsýningu á...