Von á 50 punkta hækkun

Andrew Bailey hefur sagt 50 punkta hækkun koma til greina. …
Andrew Bailey hefur sagt 50 punkta hækkun koma til greina. Stýrivextir Englandsbanka eru nú 1,25% AFP

Nýleg könnun, sem Reuters lagði fyrir hóp hagfræðinga, bendir til að verulegar líkur séu á að Englandsbanki hækki stýrivexti um 50 punkta, eða upp í 1,75%, á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans á fimmtudag. Yrði það mesta hækkun stýrivaxta frá því Englandsbanki var gerður að sjálfstæðri stofnun árið 1997 en bankinn hækkaði vexti síðast um 50 punkta árið 1995.

Niðurstöður könnunar Reuters voru birtar á mánudag og sýna að um 70% svarenda vænta hækkunar upp á 50 punkta. Er það mikil breyting frá vikugamalli könnun, þar sem 54% svarenda spáðu 25 punkta hækkun.

Ríma svörin við nýlegar stýrivaxtahækkanir í Bandaríkjunum, ESB og Kanada upp á 75, 50 og 100 punkta. Greinendur hafa bent á að vaxtaákvarðanir annarra seðlabanka kunni að skapa aukinn þrýsting á Englandsbanka að dragast ekki of langt aftur úr. Þá greindi Andrew Bailey, seðlabankastjóri, nýlega frá því að 50 punkta hækkun væri „einn af möguleikunum í stöðunni“.