Háværar kröfur um stríðsglæpadómstól

Rannsóknarteymi Úkraínumanna bera líkpoka í nágrenni Isíum. Háværar kröfur eru …
Rannsóknarteymi Úkraínumanna bera líkpoka í nágrenni Isíum. Háværar kröfur eru um sérstakan stríðglæpadómstól vegna innrásarinnar. AFP

Forsætisnefnd ráðs Evrópusambandsins fordæmdi um helgina árásir Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu og kallaði eftir því að settur yrði á laggirnar sérstakur stríðsglæpadómstóll vegna innrásarinnar í Úkraínu eftir að nýjar fjöldagrafir fundust þar.

Fjöldagrafirnar, sem um ræðir, eru í nágrenni borgarinnar Isíum, sem Úkraínumenn frelsuðu í gagnsókn sinni fyrr í mánuðinum. Í einni þeirra fundust um það bil 450 lík. Er það fjölmennasta fjöldagröf sem fundist hefur í Evrópu frá því að fjöldagröf fannst í Crni Vrh í Bosníu, en þar voru 629 lík Bosníumanna sem Serbar höfðu myrt í nágrenni Zvornik árið 1992 og Srebrenica árið 1995.

Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, sem nú fer með forsæti Evrópusambandsins, sagði á laugardaginn að slíkar árásir á almenna borgara væru óhugsandi og hryllilegar á 21. öldinni. „Við getum ekki horft fram hjá þessu. Við stöndum fyrir refsingu allra stríðsglæpamanna,“ sagði Lipavsky á Twitter-síðu sinni.