Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR var við æfingar nálægt Sandskeiði á laugardaginn þegar viðvörunarljósið fór að blikka vegna bilunar í aðalsmurkerfi. Henni var lent á flugvellinum við Sandskeið í kjölfarið. Þar sat hún föst yfir nótt en þar sem bilunin reyndist smávægileg var henni flogið til Reykjavíkur um hádegisbil í gær.

Þyrlan, sem er af gerðinni Airbus H225 Super Puma, virkaði eðlilega en til að gæta fyllsta öryggis var ákveðið að lenda henni og kanna málið. Airbus H225 Super Puma eru umdeildar þyrlur en þær voru allar kyrrsettar á heimsvísu árið 2016 þegar 13 létu lífið í þyrluslysi í Noregi. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er bilunin sem varð í TF-EIR annars eðlis en sú sem varð í Noregi á sínum tíma og ekki tilefni til að hafa áhyggjur.