Eru hlutirnir sem við erum með í stofunni heima hjá okkur verðlaunagripir í einhverjum skilningi? Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir í Fléttu safna gömlum verðlaunabikurum og setja í nýtt samhengi. Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is
Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir hafa loksins fengið verðlaunagripi.
Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir hafa loksins fengið verðlaunagripi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Þær hafa aldrei á ævinni fengið verðlaunagrip. Hvorug. Fyrr en núna. Og þá ekki fyrir eigin afrek heldur annarra, aðallega í íþróttum. Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir fengu þá hugmynd að vinna verkefni með verðlaunagripi í öndvegi þegar þær á haustdögum voru að vafra um í Góða hirðinum og ráku augun í nokkra slíka. Þær eru hönnunartvíeykið á bak við Fléttu, útskrifaðar frá Listaháskóla Íslands 2016 og 2017 og þeim dettur oft ýmislegt skrýtið í hug.

„Við höfum flutt vinnustofuna okkar tímabundið í Gryfjuna í Ásmundarsal, þar sem við vinnum að þessu nýjasta verkefni okkar, Trophy , fyrir allra safngesta augum og spjöllum við þá í leiðinni ef svo ber undir. Verkefnið snýst um að „afbyggja“ verðlaunagripi og setja þá í nýtt samhengi með því að skapa úr þeim annars konar hluti, oftast skúlptúra. Við höfum þó líka búið til nytjahluti eins og borð, lampa og fleira,“ segir Hrefna.

...