Enn ein ríkisstjórnin riðar til falls

Ítölsk stjórnmál hafa ekki verið þekkt fyrir mikinn stöðugleika í gegnum tíðina, að minnsta kosti ekki mælt í líftíma ríkisstjórna. Líftími ríkisstjórna hefur þar iðulega verið mældur í mánuðum, jafnvel dögum. Eftir síðustu þingkosningar myndaðist óvenjuleg ríkisstjórn, skipuð annars vegar hægriflokknum Bandalaginu og hins vegar vinstrisinnaða mótmælaframboðinu Fimmstjörnuhreyfingunni. Við fyrstu sýn var fátt sem sameinaði flokkana tvo, en þeir náðu að endingu saman, enda með svipaðar áherslur gagnvart Evrópusambandinu sem og í málefnum flóttamanna.

Það þurfti því kannski ekki að koma svo mikið á óvart að upp úr samstarfi ríkisstjórnarflokkanna tveggja myndi trosna á kjörtímabilinu, en deilur innan ríkisstjórnarinnar náðu hápunkti fyrir helgi þegar Matteo Salvini, innanríkisráðherra og leiðtogi Bandalagsins, tilkynnti að flokkur sinn styddi ekki lengur ríkisstjórnina, og því bæri að kalla saman þing og boða til nýrra kosninga strax í haust.

...