Ásmundur S. Guðmundsson fæddist 16. október 1937 að Auðstöðum í Hálsasveit og ólst þar upp. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 26. janúar 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Hallfríður Ásmundsdóttir, fædd 1902, og Guðmundur Þorsteinsson, fæddur 1903, bændur á Auðstöðum. Systkini hans voru Þorsteinn, Hinrik Óskar og Ingibjörg, þau eru látin en eftirlifandi bræður eru Guðmundur Kristinn og Sigurgeir Bjarni.

Eftirlifandi kona hans er Kristín Hjaltadóttir, fædd 29. nóvember 1942. Þau giftu sig 16. júní 1963. Börn þeirra eru Brynja, Hallfríður og Steinar Ás. Barnabörn þeirra eru Aron Óli og Sólveig María.

Hann hóf störf sem sendisveinn og þingsveinn hjá Alþingi 15 ára gamall og starfaði þar þangað til hann hóf störf hjá Lögreglunni í Kópavogi 1. október 1961, fyrst sem almennur lögreglumaður, síðan yfir rannsóknardeildinni og svo sem yfirlögregluþjónn. Hann starfaði við Sýslumannsembættið í Kópavogi í alls 36 ár.

...