Vindurinn gnauðar og ólmast, það hvín í trjánum og sjórinn gengur á land – og þá er gott að kúra inni og íhuga orðin sem ná utan um veðurhaminn. Óveður, illviðri, aftakaveður, rosi, foráttuveður, manndrápsbylur, stormur og öskurok. Orðin lýsa því sem er að gerast fyrir utan gluggann minn þegar bálviðrið skellur á öllu því sem fyrir er. Maðurinn má sín lítils þegar náttúruöflin byrsta sig og minna á hver séu hin raunverulegu valdahlutföll í heiminum. Þessa stríðu og blíðu náttúru höfum við fangað með blæbrigðaríkum og hárnákvæmum orðum, áður en við eignuðumst tæki til að mæla metra á sekúndu eða vindstigin tólf. Í orðunum birtist auðmýkt fyrir náttúrunni – og líka raunsætt mat.

Fornskáldin kölluðu himininn vindahjálm, og sáu fyrir sér hvernig vindurinn geisaði undir hvelfingu himinsins, sem þau líktu við manngerðan hjálm. Í Þulunum gömlu sem varðveittar eru í handritum með Snorra Eddu og geyma heiti um þau margvíslegu náttúrufyrirbæri sem skáldin

...

Höfundur: Guðrún Nordal gnordal@hi.is