Jamal Khashoggi
Jamal Khashoggi

Saksóknarar í Tyrklandi gáfu í gær út ákærur á hendur 20 manns, sem grunaðir eru um aðild að morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018. Á meðal hinna ákærðu eru tveir fyrrum háttsettir ráðgjafar Mohammeds bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.

Khashoggi var myrtur í ræðismannsbústað Sádi-Arabíu í Istanbúl í október 2018, en hann fór þangað til að útvega nauðsynleg vottorð fyrir brúðkaup sitt.

Þar var hann kyrktur og lík hans skorið í búta af fimmtán manna teymi sem beið hans. Hafa líkamsleifar Khashoggis ekki enn fundist.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segja að þeir sem myrtu Khashoggi hafi gert það án heimildar stjórnvalda og að þeim óafvitandi. Ekki er vitað hvenær réttarhöld í málum mannanna 20 munu hefjast.