Þau eru dálítil vandræðaleg viðbrögðin við Veirunni, sem tekin er að kalla á stóran staf. Hólarnir í Vatnsdal og eyjarnar á Breiðafirði eru hætt að vera óteljandi en veirurnar hljóta enn að vera það. En hana Veiru þekkjum við nú orðið betur en við kærum okkur um, þótt enn sé hún óútreiknanleg. Við vonum öll það besta og við það markmið situr.

Og ekki bara við, ég og þú, þjóðin í landnámi Ingólfs og út og austur af því. Sama gildir um hinar þjóðirnar. Veiran hefur storkað okkur flestum í nærri tíu mánuði. Það var engu skrökvað um það hversu langa setu hún myndi hafa hér sem annars staðar, óboðin og illa þokkuð. En það lá þó í loftinu að hún stæði sennilega við í þrjá eða fjóra mánuði en þá yrði komið á hana fararsnið. Enda þá tekið að hlýna. Þá bráðnar snjór, og nokkrum vikum síðar fer að grænka, fuglar mæta og það er þá sem veirur fara. Það gilti um þær veirur sem hétu ekkert sérstakt.

...