Eftir Hjörleif Guttormsson: „Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin átta ár finnst mér skorta mjög á að umræðan snúist um málefni og meginlínur.“
Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson

Á komandi hausti verður kosið til Alþingis við lok reglulegs kjörtímabils, líklegur kjördagur 25. september. Svo vill til að þingkosningar verða víðar en hérlendis í þessum sama mánuði, í Noregi til Stórþingsins 13. september og í Þýskalandi til Sambandsþingsins (Bundestag) 26. september. Fyrir áhugafólk um stjórnmál og þróun í grannlöndum okkar er þannig af nógu að taka. Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherslum af hálfu flokkanna og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikst og riðlast í skugga veirunnar. Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin átta ár finnst mér skorta mjög á að umræðan snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu. Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum.

...