Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fulltrúi Bændahallarinnar ehf. og Hótel Sögu ehf. lagði fram í héraðsdómi í gær ósk um frekari framlengingu á greiðsluskjóli fyrirtækjanna. Verði dómurinn við óskinni mun tíminn verða notaður til að láta reyna á samninga við ríkið um sölu húseignarinnar til nota fyrir Háskóla Íslands.

Beiðni um framlengingu var ekki mótmælt og kveðst Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður, umsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu Hótel Sögu, vongóður um að framlenging fáist. Héraðsdómur úrskurðar um það en að hámarki er hægt að veita fyrirtækinu þriggja mánaða frest til viðbótar því 7. júlí verður liðið ár frá því fyrirtækin nýttu sér þetta úrræði. Samkvæmt lögum getur greiðsluskjól ekki varað nema í ár.

Bændasamtök Íslands, sem eiga bæði fyrirtækin, hafa átt í viðræðum við ýmsa aðila um sölu eða leigu á húsnæði hótelsins og raunar Bændahallarinnar allrar.

...