Eftir Svönu Helen Björnsdóttur: „Skilningur á gervigreind er orðinn hornsteinn í upplýstri lýðræðisþátttöku borgaranna.“
Svana Helen Björnsdóttir
Svana Helen Björnsdóttir

Gervigreind er sú tegund greindar sem léð er vélum og er ólík mannlegri greind að því leyti að hún sýnir hvorki tilfinningar né vitund. Hún er notuð til að fela vélum að leysa ýmiss konar verkefni með sjálfstæðum hætti. Þegar fjallað er um gervigreind skal forðast að draga áætlanir um getu hennar út frá getu mannlegrar greindar. Nýlega tilkynntu stjórnvöld að móta ætti opinbera stefnu um gervigreind á Íslandi. Þeir sem til þekkja vita að það er bæði mikilvægt og tímabært.

Óskað var eftir umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda. Um málefnið segir þar: „Nú er í vinnslu stefna Íslands um gervigreind. Lýðræðislegar reglur verða að ráða því hvernig gervigreind er notuð og tryggja verður öllum jafnan rétt til að móta þjóðfélag framtíðarinnar. Með það að leiðarljósi eru hér settar fram til samráðs þær grundvallarspurningar sem stefna Íslands um gervigreind mun fást við og jafnframt fyrstu hugmyndir um upplegg og áherslu stefnunnar.“

...