Eitt mikilvægasta verkefnið sem blasir við þjóðinni er að ná atvinnuleysinu niður. Þessi vágestur hefur ekki einungis í för með sér efnahagslega erfiðleika heldur einnig félagslegar afleiðingar sem erfitt er að meta til fjár. Um 11 þúsund manns hafa misst vinnuna frá því faraldurinn gerði fyrst vart við sig í fyrra og nú eru um 21 þúsund manns án atvinnu í landinu. Við þessu þarf að bregðast með afgerandi hætti.

Vandinn verður þó ekki leystur með því einu að fjölga störfum hjá hinu opinbera. Lausnin liggur í eflingu atvinnulífsins sem stendur undir verðmætasköpun hagkerfisins og þar með skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Á liðnum 15 mánuðum hafa fyrirtækin í landinu tekið á sig þungt högg með tilheyrandi fækkun starfa á meðan starfsemi ríkisins hefur lítið raskast. Nýlega birtust tölur um launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði þar sem í ljós kom að hið opinbera hefur leitt launaþróun á vinnumarkaði. Sú staða gengur ekki til lengdar.

...

Höfundur: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir