Atli Bollason
Atli Bollason

Getur hljóð orðið að mynd? Mynd að ljósi? Ljós að hljóði? Getur forritun verið listiðkun? Vefsíða verið listaverk? List verið tölvuleikur? Þessum spurningum er leitast við að svara á Sónarspili, sjálfstæðri hliðardagskrá á Sónar Reykjavík sem hefst í dag en á henni eru mörk listar og tækni í forgrunni, eins og segir í tilkynningu.

Undir merkjum Sónarspils verða haldin þrjú námskeið opin almenningi. „Framtíðin verður þeirra sem nota tæknina með óvæntum og skapandi hætti. Þess vegna langaði okkur til að skapa vettvang fyrir þá sem eru að nota rafeinda- eða tölvubúnað í sinni list – eða vilja gera það í auknum mæli – til að sækja sér þekkingu og deila reynslu,“ er haft eftir Atla Bollasyni en hann er einn af skipuleggjendum dagskrárinnar. Upplýsingar um hana má finna á vefsíðu Sónar Reykjavík á eftirfarandi slóð: sonarreykjavik.com/en/2018/sonarspil. Fyrsta námskeiðið hefst kl. 10 í dag.