Eftir Stefán E. Matthíasson og Þórarin Guðnason: „Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. ... Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins.“
Stefán E. Matthíasson
Stefán E. Matthíasson

Ekki verður betur séð en að heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhverskonar afneitun þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnst.

Hin almenna heilbrigðisþjónusta er byggð á þremur grunnstoðum: Heilsugæslu, starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og sjúkrahúsþjónustu. Nokkuð góður samhljómur hefur verið um þessa þrískiptingu fram til þessa. Hér skiptir mestu að þarfir neytandans séu ávallt hafðar í forgangi.

...