Atkvæðamikill Marko Bakovic skorar framhjá Emil Barja á Ásvöllum.
Atkvæðamikill Marko Bakovic skorar framhjá Emil Barja á Ásvöllum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Marko Bakovic fór mikinn fyrir Þór Þorlákshöfn sem vann fjögurra stiga endurkomusigur gegn Haukum í bikarkeppni karla í körfuknattleik, Geysisbikarnum, á Ásvöllum í Hafnarfirði í fyrstu umferð keppninnar í gær. Leiknum lauk með 71:67-sigri Þórsara en Bakovic var með tvöfalda tvennu í leiknum og skoraði 20 stig og tók fjórtán fráköst.

Haukar leiddu með tólf stigum í hálfleik, 45:33, en Þórsarar skoruðu 23 stig í þriðja leikhluta gegn 10 stigum Hauka. Þórsarar héldu svo út í fjórða leikhluta og tryggðu sér sæti í annarri umferð bikarkeppninnar á kostnað Hafnarfjarðarliðsins.

Kári Jónsson var stigahæstur Hauka með 17 og Flenard Whitfield skoraði 16 stig.

Þá tryggði úrvalsdeildarlið Tindastóls sér sæti í annarri umferðinni eftir 83:68-sigur gegn 1. deildarliði Selfoss í Vallaskóla á Selfossi. Jaka Brodnik var stigahæstur í liði Tindastóls með 25 stig en Kristijan Vladovic skoraði 20 stig fyrir Selfyssinga.

...