Listakonan „Ég lít á þessar bækur og blaðsíðurnar sem efnivið,“ segir Helga Arnalds um verkin sem hún sýnir.
Listakonan „Ég lít á þessar bækur og blaðsíðurnar sem efnivið,“ segir Helga Arnalds um verkin sem hún sýnir. — Morgunblaðið/Einar Falur

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Bækur eru uppsprettan í öllum þessum verkum,“ segir Helga Arnalds myndlistar- og leikhúskona þar sem hún er að setja upp sýningu á nýjum myndverkum í Grafíksalnum, sýningu sem hún opnar í dag, fimmtudag, klukkan 17. Salurinn er á Tryggvagötu 17, í Hafnarhúsinu, og gengið inn hafnarmegin.

Í mörg undanfarin ár hefur Helga einkum helgað krafta sína leikhúsinu. Hún er menntuð í myndlist og var síðustu þrjú árin í framhaldsnámi í henni í Árósum í Danmörku; afraksturinn er þessi sýning þar sem bækur eru efniviðurinn. Upp á veggi Grafíksalarins hefur hún sett nokkra kjarna verka þar sem hún hefur teiknað, málað eða þrykkt á nokkrar blaðsíður úr ákveðnum bókum. Þá ganga skúlptúrar úr bókum út frá einum veggnum. Í flestum verkanna bætir hún við það sem fyrir er á síðunum og nefnir sýninguna „Önnur útgáfa – Aukin og endurbætt“.