Sá hörmulegi atburður átti sér stað 30. janúar 1970 að Rúnar Vilhjálmsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, féll niður af svölum Windsor-hótelsins í útjaðri Lundúna, þar sem landsliðið dvaldist vegna vináttulandsleiks gegn Englendingum. Rúnar gekk út á svalirnar á herbergi sínu skömmu eftir komuna á hótelið en gólfið gaf sig og féll hann tæpa níu metra og skall niður í kjallaratröppur. Hann var fluttur í National-sjúkrahúsið og lést þar tveimur dögum síðar vegna höfuðmeiðsla sem hann hlaut í fallinu. Rúnar var rétt orðinn tvítugur, lék með Fram og stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík.

„Hann var í hópi efnilegustu knattspyrnumanna landsins, og var ferðin til Englands önnur för hans með íslenzka landsliðinu í knattspyrnu en það lék í gærkvöldi við áhugamannalandslið Englendinga. Léku liðsmenn beggja með svarta sorgarborða á handleggjum,“ sagði í baksíðufrétt Morgunblaðsins þriðjudaginn 3. febrúar 1970.