Eftir Jónas Haraldsson: „Svartlistunin hefur aðeins gert mig frægan í nokkra daga og fært mér mikinn stuðning almennings, sem örugglega hefur ekki verið ætlunin hjá kínverskum stjórnvöldum.“
Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Fyrir stuttu varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera settur á svartan lista hjá Kínverska alþýðulýðveldinu, eins og einhverjir hafa vafalaust tekið eftir. Ástæðan virðist vera sú, að ég hafði skrifað nokkrar blaðagreinar í Morgunblaðið í gegnum árin, sem Kínverjunum hefur ekki líkað. Hafa þeir nú notað tækifærið og sett mig á svartan lista til að sýna vanþóknun sína á mér og þá ekki síst vegna stuðningsyfirlýsingar íslensku ríkisstjórnarinnar við Úígúra, sem Kínverjar virðast fara með eins og skepnur. Þjóð sem heimurinn hefur fulla samúð með, eins og yfirlýsingar ýmissa þjóða sýna, jafnframt skrif í blöðum og tímaritum, en sem ekki má nefna í eyru kínverskra stjórnvalda, frekar en snöru í hengds manns húsi. Sama gildir líka varðandi Kínaveiruna. Hversu óþægilegar sem þessar staðreyndir eru Kínverjum, þá geta þeir ekki endalaust neitað þeim, því þetta er nokkuð sem allur heimurinn veit um. Stöðug neitun á alkunnum staðreyndum dregur bara úr...