Eftir Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur: „Ofbeldið verður að stöðva og mannréttindalöggjöf og alþjóðleg mannréttindi verða að vera virt.“
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir

Að morgni 24. febrúar síðastliðins vaknaði heimsbyggðin upp við fréttir sem settu hugmyndir okkar um öruggt líf í Evrópu til hliðar. Hugmyndir og vonir um að mannréttindi og lýðræði séu virt í milliríkjasamskiptum. Við urðum vör við það að einræðisherra sem dulbýr sig sem lýðræðislegan leiðtoga stærstu þjóðar Evrópu virðist vera alveg sama um réttindi og sjálfstæði ríkja og hvað þá grundvallarmannréttindi fólks, hvort sem það séu hans eigin þegna eða annarra ríkja.

Sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða

Þann 26. júní árið 1945, í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna undirritaður.

Þar segir: „Vér, hinar sameinuðu þjóðir, staðráðnar í að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið, að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna

...