Kafbáturinn sem neitaði að gefast upp

Þýsk kafbátaáhöfn stillir sér upp á dekki bátsins áður en …
Þýsk kafbátaáhöfn stillir sér upp á dekki bátsins áður en lagt er úr höfn. Myndin er tekin í júní 1942. Ljósmynd/Bundesarchiv

Að morgni 10. júlí árið 1945 sigldi þýskur kafbátur óvænt inn í höfn argentínsku borgarinnar Mar del Plata. Skrokkur bátsins var þakinn ryði, nær öll málning horfin af stjórnturni hans og dekkbyssan hvergi sjáanleg. Skyndilega byrjaði morslampi að senda frá sér skilaboð; þýskur kafbátur, við viljum gefast upp. Þegar hér var komið sögu voru rúmlega tveir mánuðir liðnir frá skilyrðislausri uppgjöf Þýskalands í síðari heimsstyrjöld. Seinast hafði verið vitað um ferðir þessa báts þar sem hann var þá staddur úti fyrir ströndum Noregs fjórum mánuðum fyrr. Nú 75 árum síðar er enn ekki með fullu vitað hver leiðangur kafbátsins var. 

Kafbáturinn nefndist U-530 og var af gerðinni IXC/40, uppfærð útgáfa af IX-gerð kafbáta sem hannaðir voru fyrir sjóher Þriðja ríkisins á þriðja áratug síðustu aldar. Framkvæmdir hófust við smíði U-530 í skipasmíðastöð í Hamborg 8. desember 1941 og var hann afhentur til herþjónustu 14. október 1942. Kafbáturinn var tæpir 77 metrar á lengd, nærri 7...