Stríðskostnaður hugverkaréttinda

Google og Oracle tókust á um notkun kóðabúts í Android-stýrikerfinu. …
Google og Oracle tókust á um notkun kóðabúts í Android-stýrikerfinu. Deilan sýnir m.a. að það er ekkert grín að reyna að halda uppi vörnum í hugverkaréttarmáli. AFP

Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Mexíkóborg ai@mbl.is Loksins er komin niðurstaða í deilu Oracle og Google og lauk með því að Hæstiréttur Bandaríkjanna rýmkaði skilgreininguna á „sanngjarnri notkun“. Málið vekur upp spurningar um þann óskapnað sem umgjörðin utan um hugverkaréttindi er orðin.

Furðu sætir hve litla athygli íslenskir og erlendir fjölmiðlar veittu úrskurði Hæstaréttar Bandaríkjanna í síðustu viku, í máli Oracle gegn Google. Varð það niðurstaða Hæstaréttar, með sex atkvæðum gegn tveimur, að Google hefði verið heimilt að nota ríflega 11.000 línur af Java-forritunarkóða sem var upphaflega saminn af Sun Microsystems, sem Oracle keypti svo árið 2009. Kóðann fékk Google að láni við smíði Android-stýrikerfisins sem núna má finna í vel yfir tveimur milljörðum snjallsíma um allan heim og hafði Oracle gert sér vonir um að fá allt að níu milljarða dala í bætur fyrir meintan hugverkastuld. Áður hafði millidómstig úrskurðað Oracle í hag.