„Nýju“ er hvergi að finna

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur telur að umræða um „nýju stjórnarskrána“ hafi …
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur telur að umræða um „nýju stjórnarskrána“ hafi verið ógrundvölluð og á villigötum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur skrifaði nýverið grein í Tímarit lögfræðinga, sem vakið hefur nokkra athygli, en þar fjallar hún um breytingarreglu stjórnarskrárinnar og hvernig umræða um „nýju stjórnarskrána“ hefur ratað á villigötur.

Þessi grein er um stjórnarfar okkar, hvað það er sem gerir það að verkum að við búum við lýðræði. Ég kalla greinina Landfesti lýðræðis, sem vísar til þess að það er stjórnarskráin sem gerir okkur að lýðræðisríki, felur í sér meginreglurnar sem tryggja hið stjórnarskrárbundna, frjálsynda lýðræði. Þetta reyni ég að útskýra og af hverju stjórnarskráin er svo mikilvæg í því samhengi og sérstaklega reglan um það hvernig stjórnarskrám verður breytt.“

Breytingarreglan?

„Já, Stjórnarskráin sjálf hefur þann eiginleika að ráða því sjálf hvernig henni verður breytt. Það stendur í henni sjálfri með hvaða hætti á að standa að breytingum á henni. Það er gert gagngert – eins og alls staðar annars staðar  til að það sé ekki auðvelt að breyta stjórnarskrá, heldur erfitt. Það þarf mikið til. Það er með ráðum gert, sem snýst um það að halda stjórnarskrárfestu í löndum, að það geti enginn einn meirihluti komið og breytt öllu. Að það sé ekki einfalt fyrir tiltekna pólitíska flokka að breyta henni að hentisemi, það þurfi meira en einn flokk, það þurfi víðtæka samstöðu og vilja til. Það þurfi að virða ákveðna aðferðafræði og vanda til verka.“

Málið er flókið en greinin auðskiljanleg.

„Ég er glöð að heyra það, því það var einmitt tilgangurinn. Umræðan er oft og tíðum svo grunn, mikið háð á samfélagsmiðlum eins og TikTok, þar sem skilaboðin eru kannski innan við mínúta. Og alvörufjölmiðlar eru jafnvel farnir að taka þessi mál aðeins af samfélagsmiðlum. Efnisleg umræða fyrir almenning hefur hins vegar nær engin verið, hvort sem er um aðferðafræðina eða einstök ákvæði.

Þetta hefur því þróast eins og kosningabarátta þar sem aðeins er einn aðili að heyja baráttu, fyrst og fremst á samfélagsmiðlum. Fjölmiðlar eins og Ríkissjónvarpið tekur upp listræna gjörninga, veggjakrot og slíkt inn í sínar fréttir, en varla neitt á dýptina.“

Veikar forsendur og vinnubrögð

Hún var ekki miklu dýpri í hruninu.

„Ég ætla ekki að gagnrýna stjórnlagaráðsliða og þeirra forsendur. Þau fengu bara sitt hlutverk og skiluðu sínum pappírum. En ég fjalla um það í greininni hvað vantaði samt inn í þá vinnu, sem skiptir miklu máli ...“

Vantar, segirðu? Var ekki einmitt vandinn að þau gerðu meira en til var ætlast?

„Jú, það er eitt af því. Ég bendi á það að stjórnlagaráð hafi farið út fyrir umboð sitt, það umboð sem Alþingi veitti því. Kjarni málsins er sá að ekkert af þessu hefði gerst án Alþingis. Alþingi er eini aðilinn í íslensku samfélagi, sem getur breytt stjórnarskránni.

Það er Alþingi, sem setur þetta af stað með lögum um ráðgefandi stjórnlagaþing, en vegna þess hvernig stjórnarskráin er gat það aldrei orðið annað en ráðgefandi.

Svo kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaráðs hafi verið ólögmætar með rökum, sem ég hafði kannski ekki kynnt mér í þaula áður en ég fór að skrifa greinina, en við ritun hennar, þá verð ég að játa að það voru gildar ástæður fyrir því að Hæstiréttur þurfti að grípa í taumana.“

En aðeins um gagnrýnina á núgildandi stjórnarskrá, að hún væri rót bankahrunsins, að hún væri dönsk, hún væri úrelt og svo framvegis. Hún er varla úreltari en við Íslendingar viljum, margbreytt sem hún er?

Traust stjórnarskrá

„Henni hefur verið breytt býsna oft, við höfum stjórnarskrá í gildi og það sem meira er, að stjórnarskráin stóð sig mjög vel í hruninu.“

Var hún ekki um það bil hið eina sem hélt?

„Jú það má segja það. En hrunið varð mönnum tilefni til þess að reyna að gerbreyta henni. Það er miklu nær að líta svo á að það hafi verið það sem gerðist. Að það voru vissir aðilar sem litu á þetta sem tækifæri til þess að breyta stjórnarskránni.“

Tækifæri fyrir lýðveldið eða sjálfa sig?

„Tækifæri fyrir sig og sinn hóp, skulum við segja. Skoðanasystkin eða skoðanaleiðtoga.

Við þessu vil ég segja eitt. Ég held að það sé algerlega ljóst, að fjármálakreppa sé einn versti tímapunktur til þess að breyta stjórnarskrá, sem hugsast getur. Þýsk rannsókn leiddi í ljós að fjármálakreppur hafa sögulega alltaf leitt til þess að öfgar í stjórnmálum verða meiri. Hefðbundir stjórnmálaflokkar, þingræðisflokkar, flokkar sem virða leikreglur lýðræðisins, eiga mjög í vök að verjast. Og það er líka mjög þekkt í stjórnmálasögunni að það verði til alræðisstjórnir, upplausn, átök, stríð.“

Hér og nú?

„Það þekkist ekki aðeins í fortíð, við höfum nýleg dæmi um það eins og árásina á þinghúsið í Bandaríkjunum eða óhugnanlega þróun stjórnarfars í Ungverjalandi, sem má einmitt rekja til stjórnarskrárbreytinga.

Ég fjalla um það í greininni að slíkt hefði  ekki verið hægt á Íslandi. Sem er gott og sýnir styrkleika okkar breytingarreglu. Á Íslandi reyndist það ekki vera hægt vegna þess að stjórnarskráin girti sjálf fyrir það. Og hversu oft sem gerðar eru skoðanakannanir sem sýna fram á að meirihluti kalli eftir einhverju, þá erum við öll  forseti Íslands eða forsætisráðherra, þingmenn eða ekki þingmenn, dómarar eða hvað við erum  öll jafnsett með það að við þurfum að hlíta breytingarreglu stjórnarskrárinnar.“

Þetta virðast ekki allir skilja, er það?

Það sem ýtti mér út í að skrifa þessa grein var þegar ég áttaði mig á því í síðustu bylgju undirskriftasafnana og ósvífins áróðurs á samfélagsmiðlum, að ungt fólk á Íslandi var farið að trúa því að „nýja stjórnarskráin“ lægi þarna tilbúin og gæti hvenær sem er orðið stjórnarskrá Íslands. Að það væru bara spilltir íslenskir stjórnmálamenn, sem hefðu gert Ísland að spilltasta landi í heimi, sem væru að hindra það að þessi dásamlega stjórnarskrá, sem myndi leysa öll vandmál á Íslandi ef ekki heimsins alls, sérstaklega loftslagsvá, tæki gildi.

Kjarni málsins er sá að það eru algerlega skýrar reglur stjórnarskrárinnar, sem er ástæða þess að stjórnarmeirihlutinn á sínum tíma gat ekki komið þessu í gegn. Ástæðan er sú að hann varð að virða stjórnarskrána. Það er ástæðan.“

Fjármálahrun og búsáhaldabylting var óheppilegur grundvöllur stjórnarskrárbreytinga.
Fjármálahrun og búsáhaldabylting var óheppilegur grundvöllur stjórnarskrárbreytinga. Morgunblaðið/Ómar

Stjórnarskráin eina vörn Íslands

En það var ákall um það að það ætti og yrði að vanvirða stjórnarskrána til þess að koma nýrri og dásamlegri stjórnarskrá á. Og enn þann dag í dag er verið að tala um það.

„Já, ég veit það og það hef ég aldrei skilið. Þetta er sorgleg ranghugmynd. Stjórnarskráin átti enga sök á efnahagshruni eins og hér varð.

Sannleikurinn er sá að þegar Ísland var í þessari veiku stöðu  stórhættulegri stöðu, sem hefði getað farið miklu verr  þá höfðum við engar leiðir eða bjargráð. En við höfðum lögin og fullveldið. Ekkert efnahagslegt afl við þessum alþjóðlegu ofurkröftum, við höfðum bara vörnina sem fólst í lögunum. Við settum neyðarlög á grundvelli stjórnarskrár, sem okkar Hæstiréttur komst að því að stæðist og enginn getur fett fingur út í. Við beitum þarna fullveldinu og það var Íslandi til bjargar.“

En er það ekki skrýtið að þegar talið um nýja stjórnarskrá hefst, hvað það er mikið af fólki í þinginu, fólk sem hefur unnið eið að stjórnarskránni, sem talar stjórnarskrána niður, grefur undan henni, grefur undan stofnunum ríkisins, grefur undan eigin umboði og stöðu? Og sumir enn að?

„Stór orð og tilfinningahiti hafa einkennt þetta mál frá upphafi, litað af þeim átökum og ólgu sem voru í samfélaginu á sínum tíma. Auðvitað eru margir sem líta svo á að þetta sé helg arfleifð Búsáhaldabyltingar. Að það hafi verið gerð bylting og margir litu svo á að það hafi verið byltingarástand í landinu. Það hefur óneitanlega tengst svolítið þessari hreyfingu, sem er að berjast fyrir þessum málstað í dag. Það er ekki stjórnlagaráðið sem er að berjast fyrir því, heldur ákveðnir hópar eins og Stjórnarskrárfélagið, sem hafa tekið þennan gunnfána upp.

Sú umræða hefur gengið svo langt að mætur maður eins og Ragnar Aðalsteinsson lögmaður lýsti því yfir í viðtali á Sprengisandi að valdarán væri eðlilegt svar ef „nýja stjórnarskráin“ tæki ekki gildi. En þá eru menn ekki lengur að virða stjórnarskrána og þar með hættir að virða grunngildi frjálslynds, stjórnarskrárbundins lýðræðis. Sem er grafalvarlegt.

Ég segi fyrir sjálfa mig, sem hef starfað í Samfylkingunni, stjórnmálaflokki vinstra megin við miðju, að jafnaðarmenn og jafnaðarmannaflokkar hafa aldrei verið þarna. Sósíaldemókratar eru þingræðissinnar, framfarasinnar sem vilja ná markmiðum sínum innan ramma stjórnarskrárbundins lýðræðis, sem virðir þingræðið.“

Enginn þjóðarvilji

Af hverju er umræðan komin á þennan stað?

„Það er ekki hægt að koma tillögu stjórnlagaráðs í gildi með lögmætum hætti. Það er útilokað. Það er útilokað vegna þess að hún er ekki tilbúin. Útilokað af því að ferlið allt í þinginu fór út um þúfur.“

Hvernig þá?

„Stjórnarmeirihlutinn féllst á breytingarregluna snemma í ferlinu þegar menn áttuðu sig á því að annað væri ekki hægt, en það varð síðan vaxandi misræmi milli þess sem var gert og þess sem var sagði. Látið var eins og það væri að koma algerlega ný stjórnarskrá og tönnlast á því að þjóðin hefði samið þessa nýju stjórnarskrá og svo framvegis. Tal um það, að það sé einhver einn þjóðarvilji, sem liggi fyrir og megi finna. Þjóðarvilji er ekki til nema í fasískri hugmyndafræði.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru hins vegar sannarlega til en í þessu ferli mistókst bæði kosning til stjórnlagaþings og þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er býsna sérstakt frávik frá annars farsælli kosningahefð á Íslandi.

Heldur þú að Jóhanna hafi trúað þessu?

„Ég held að hún hafi haft mikinn áhuga á þessu máli, kannski meiri áhuga en flestir aðrir. Það hafði sjálfsagt mikil áhrif.“

Það voru auðvitað ýmsir í hruninu, sem fannst þeir eiga stefnumót við Íslandssöguna, en af hverju að hjakka enn í sama farinu, eins og ekkert hafi gerst í millitíðinni?

„Já, það er bara þeirra val og lítið um það að segja. En maður getur á heiðarlegan hátt sest niður og reynt að skrifa greiningu á þessu máli, reynt að útskýra af hverju „nýju stjórnarskrána“ sé hvergi að finna. Svarið við spurningunni „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ er einfaldlega að hana sé hvergi að finna.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögurnar var svo gölluð að hún gat ekki leitt málið til lykta.“

Var verið að plata fólk á kjörstað?

„Spurningarnar voru mismunandi, en aðalspurningin var hvort það ætti að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að stjórnarskrá. Þessi spurning er svo gölluð, bundin svo miklum ef og þegar og kannski skilyrðum, að það er ekki hægt að úrskurða núna frekar en þá, hvaða texta var átt við. Það var illa útskýrt fyrir almenningi að það var búið að taka tillögur stjórnlagaráðs og breyta þeim mjög mikið í þingnefnd. Raunar var haldið áfram að breyta þeim mikið eftir atkvæðagreiðsluna. Um hvað var þá verið að kjósa?

Ég skal svara því svona: Ef gengið yrði til atkvæða á Alþingi um lagafrumvarp sem ekki lægi fyrir fullbúið yrði litið á það sem ógilda afgreiðslu og málsmeðferðin rétt af. Þarna átti sér stað þjóðaratkvæðagreiðsla sem var sama marki brennd í raun og það þarf að gera það upp.

Atkvæðagreiðslan leiddi málið ekki til lykta, heldur jók á óvissuna?

„Já. En svo er annað. Hvenær var var það ákveðið að breyta allri stjórnarskránni, að skrifa algerlega nýja stjórnarskrá? Það var aldrei ákveðið. Stjórnlagaráð var ekki beðið um það.

Sú hugmynd að gerbylta stjórnarskrá í mjög vel virkandi lýðræðisþjóðfélagi, sem ég tel að Ísland sé, er mjög áhættusöm. Hún getur ekki aðeins valdið upplausn í stjórnmálum, heldur hefur hún einnig óheillavænleg áhrif á réttarríkið sjálft, setur fordæmi í uppnám og eyðir fyrirsjáanleika, sem samfélagið hvílir að miklu leyti á. Við þekkjum það öll, meðal annars úr hruninu, að óvissan var óþolandi, hvort sem er fyrir samfélagið, einstaklinga eða fjölskyldur. Það hefði verið eitt hið versta sem við hefðum getað gert, að láta það sama ganga yfir stjórnlög okkar.“

Það gæti nú enn gerst.

„Það er blekking að halda því fram að til hafi staðið að gerbreyta stjórnarskránni í einu vetfangi. Það var engin leið þá og það er engin leið til þess nú. Stjórnmálamaður, sem heldur því fram að hann ætli að fara að lögfesta tillögur stjórnlagaráðs, hann getur ekki gert það, hann getur ekki efnt það kosningaloforð.“

  • Viðtalið hér að ofan birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, en fór ólagfært inn í blaðið. Auk nokkurra smávægilegra lagfæringa féllu tvær setningar út úr því. Það er birt hér að ofan með þeim leiðréttingum og lesendur og Kristrún beðin afsökunar á mistökunum.

 

#HVARERNYJA

eftir Andrés Magnússon

Hugmyndin um nýja stjórnarskrá varð til í andrúmsloftinu á Íslandi skömmu eftir bankahrunið 2008, í óðagoti, uppnámi og ólgu. Þá átti að búa til Nýja Ísland og moka flórinn, koma á nýrri skipan.

Leiðin að þessum markmiðum reyndist kræklótt. Kosning til ráðgefandi stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá var ógilt af Hæstarétti, en þá greip ríkisstjórnin til þess úrræðis að skipa stjórnlagaráð nánast sama fólki og hafði orðið efst í hinni ógildu kosningu. Það samdi tillögu að glænýrri stjórnarskrá á fjórum mánuðum, í stað hinnar gömlu.

Sú tillaga vafðist fyrir þinginu, enda margháttaðir gallar á henni. Samt var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkrar greinar hennar og spurt hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að vera lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Innan við helmingur atkvæðisbærra manna tók þátt, en 2/3 þeirra svöruðu spurningunni játandi; innan við þriðjungur kjósenda. Stuðningurinn við heildarumskipti á stjórnarskrá var því veikur, svo ekki sé meira sagt. Sumir drógu í efa þekkingu almennings á tillögunum, sem ekki er fráleitt í ljósi þess að Alþingi var enn að breyta tillögunum meðan og eftir að atkvæðagreiðslan fór fram.

Þær stjórnarskrárbreytingar dagaði svo uppi en komust aftur í umræðuna í fyrra með herferð á félagsmiðlum og ýmsum gjörningum, þar sem gjarnan var spurt „Hvar er nýja stjórnarskráin?“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »