Stjarnfræðingar leita að upphafi alheimsins

Stærsta og öflugasta geimsjónauka, sem smíðaður hefur verið, verður skotið á loft skömmu fyrir jól en honum er ætlað að afla upplýsinga um hvernig alheimurinn varð til og um fjarlægar reikistjörnur, líkar jörðinni, í öðrum sólkerfum.

Sjónaukinn er nefndur eftir James Webb, fyrrverandi forstjóra bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, og tekur við af Hubble-geimsjónaukanum, sem hefur verið á sporbraut um jörðu síðustu þrjá áratugi. Standa vonir til að Webb-sjónaukinn auki skilning manna á því hvernig alheimurinn myndaðist fyrir nærri 14 milljörðum ára.

Stjarnfræðingurinn John Mather, einn af forvígismönnum Webb-verkefnisins, lýsti því nýlega í tísti á Twitter hvað nýi sjónaukinn væri næmur.

„#JWST getur mælt varmann frá býflugu á tunglinu,“ tísti hann, að því er kemur fram í frétt fréttaveitunnar AFP.

Stærstu spurningarnar

Webb-sjónaukinn á að geta greint dauft ljós sem fyrstu sólkerfi alheimsins sendu frá...