Sæskrímsli í Ölpunum

Steingervingar þriggja fiskeðla sem syntu í úthöfum fyrir rúmum 200 milljónum ára hafa fundist í svissnesku Ölpunum, þar á meðal stærsta steingerða tönn sem fundist hefur úr þessari risaeðlutegund.

Fiskeðlur voru með stærstu dýrum sem lifað hafa á jörðinni, vógu allt að 80 tonn og urðu allt að 20 metra langar. Fyrstu menjar um fiskeðlur eru frá fyrstu öldum tríastímabilsins, jarðsögulegs tímabils fyrir 245 til 202 milljónum ára. Vitað er að minni fiskeðlutegundir, sem minna á höfrunga nútímans, lifðu þar til fyrir um 90 milljónum ára en risavöxnu tegundirnar dóu út fyrir um 200 milljónum ára.

Sjaldgæft er að steingerðar leifar fiskeðla finnist og þess vegna er lítið vitað um þær, segir Martin Sander, vísindamaður við háskólann í Bonn og aðalhöfundur greinar um steingervingana sem birtist í tímaritinu Journal of Vertebrate Paleontology.

Steingervingarnir eru taldir vera af dýrum sem lifðu fyrir um 205 milljónum ára. Þeir fundust á árunum 1975 til 1990 í...