Isabella Ósk Sigurðardóttir
Isabella Ósk Sigurðardóttir

Miðherjinn Isabella Ósk Sigurðardóttir, sem valin var í lið októbermánaðar hjá Morgunblaðinu í Dominos-deildinni í körfubolta, spilar væntanlega ekki fleiri leiki á þessari leiktíð. Isabella meiddist í hné á æfingu á dögunum og nú er orðið ljóst að hún er með slitið krossband. Því má gera ráð fyrir að hún verði frá keppni í að minnsta kosti níu mánuði.

Um er að ræða mikið áfall fyrir hina 21 árs gömlu Isabellu sem og Breiðablik en hún hefur verið algjör lykilmaður í liðinu og skilað hæstu framlagi íslensku leikmannanna það sem af er leiktíð. Isabella hefur skorað 9,6 stig að meðaltali í leik, tekið 10,8 fráköst og átt 2,4 stoðsendingar, og verið með 19,4 framlagspunkta

Breiðablik var án Isabellu þegar liðið tapaði gegn Keflavík á miðvikudagskvöld en liðið hefur tapað fyrstu sex leikjum sínum á tímabilinu, flestum þó með litlum mun. sindris@mbl.is