Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Við heyrðum sögu Antons Gunnars Ólafssonar í dag. Hann var ættleiddur sjö mánaða gamall, frá Indlandi, af hjónum frá Akureyri. Hann hefur hugsað um uppruna sinn frá barnsaldri, óhjákvæmilega áttaði hann sig á því að hann var ólíkur öðrum börnum í kringum sig. Hann fór þó ekki að hugsa af alvöru um það að leita að uppruna sínum fyrr en eftir að faðir hans lést árið 2016. Hann fékk í sínar hendur skjölin sem fylgdu honum í ættleiðingunni, og eftir að hafa leitað ráða, meðal annars hjá vinkonu sinni sem hafið staðið í sömu sporum, fór hann loks til Indlands í fyrsta sinn. Hann er nýkominn heim úr þeirri ferð og við fengum að heyra í þættinum hjá honum hvernig sú reynsla var. Svo kom Jónatan Garðarsson aftur til okkar, eins og hann hefur gert undanfarnar vikur, til að fræða okkur um okkar frábæra tónlistarfólk. Í dag sagði Jónatan okkur sögu Hauks Morthens, en á föstudaginn hefði Haukur orðið 100 ára. Hann var auðvitað einn farsælasti og vinsælasti dægurlagasöngvari Íslands. Við komum ekki að tómum kofanum hjá Jónatani í dag frekar en fyrri daginn. Tónlist í þættinum í dag: Ennþá man ég hvar / GÓSS (Mogens Dam og Kaj Andersen texti Bjarni Guðmundsson) Ó, borg mín borg / Haukur Morthens (Haukur Morthens, texti Vilhjálmur frá Skáholti) Við freistingum gæt þín / Haukur Morthens (Jóhann Helgason, texti Matthías Jochumson) UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Anton leitaði upprunans á Indlandi og Haukur Morthens 100 áraHlustað

15. maí 2024