Magna saga skipstjóra

Söguhetjan sjálf. Magni Kristjánsson frá Neskaupstað.
Söguhetjan sjálf. Magni Kristjánsson frá Neskaupstað.

Magni Kristjánsson er fæddur árið 1942. Hann ólst upp á Norðfirði, fór ungur að stunda sjó og var lengi skipstjóri. Magni hefur komið víða við og á litríka sögu að baki.

Hann var þekktur aflaskipstjóri meðan hann stundaði sjóinn, hann fór til Grænhöfðaeyja til að kenna fiskveiðar, fór svo í land og gerðist kaupmaður og hótelhaldari, sat í bæjarstjórn á Norðfirði og einnig í sameinaðri Fjarðabyggð og átti um tíma sæti í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Í bókinni segir einnig frá ýmsum ævintýrum tengdum sportveiði sem Magni stundaði þegar tími gafst til, bæði lax- og hreindýraveiðum. Skrásetjari er Ragnar Ingi Aðalsteinsson. Hér á eftir fara valdir kaflar úr bókinni þar sem skipstjórinn Magni segir frá viðburðaríku lífi víða um höf.

Happafleyta. Bjartur NK-121. Smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í …
Happafleyta. Bjartur NK-121. Smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í Niigata á Honsjú-eyju í Japan á árunum 1972-73 fyrir Síldarvinnsluna hf. í Neskaupstað. Magni var fyrsti skipstjóri á honum og sótti skipið til Japans. Heimsiglingin tók 49 sólarhringa og hafði þá Bjartur lagt að baki 13.150 sjómílur til heimahafnar. Bjartur var í eigu SVN í 43 ár en var seldur til Írans í september á síðasta ári. Alla tíð mikið afla- og happaskip. Á myndinni er Bjartur við ankeri í Panama og bíður þess að komast í gegnum Panamaskurðinn, frá Kyrrahafinu og út í Atlantshafið áleiðis heim til Íslands.

Hætt komnir á Berki

Og heim komst Börkur frá Noregi og ég varð fyrsti stýrimaður þegar hann fór á veiðar hér heima. Börkur var þrjú hundruð og tuttugu tonna bátur. Við höfðum flestir áður verið á elsta Barða sem tók tvö hundruð og tuttugu tonn. Sigurjón Valdimarsson var skipstjóri á þessum bátum báðum og við urðum miklir vinir. En Börkur var miklu betur útbúinn, hann var með hliðarskrúfur og fiskidælu og mjög góð tæki í brú. Þetta leit vel út og við komum heim í nóvember 1966, fórum beint á veiðar og fyrsta kastið var mjög stórt en það var kaldaskítur. Á Barða vorum við vanir að háfa síldina og þá rann sjórinn svo vel úr fiskinum áður en hann fór í lest.

En þarna vorum við komnir með fiskipumpu. Það þarf góða síu til að hún skilji sjóinn frá fiskinum. Við gáðum ekki að því að við dældum svo hratt að sían hafði ekki undan og það fór of mikið af sjó í lestina. Við höfðum aldrei áður verið með fiskipumpu og því fór þetta svona. Við vorum langt komnir með að pumpa í bátinn þegar hann fór að hallast út á hliðina. Hann seig svo niður stjórnborðsmegin. Það var mikið eftir í nótinni á síðunni en lestin var hálffull og hann seig undan þeim þunga. Það voru miklar lunningar á skipinu og smátt og smátt rann sjóblandaður fiskurinn í lestinni út í síðuna og hallaði þessu enn meira og þetta var komið í óefni. Við gátum ekki leyst pokann frá bátnum og allt var komið á kaf stjórnborðsmegin. Sigurjón sagði mér að fara og skera á nótina við blokkina og ég byrjaði á því og vann eins hratt og ég gat. Á meðan voru aðrir búnir að losa gúmmíbátinn af brúarþakinu.

Ég hélt áfram að skera og skera, hnífurinn orðinn bitlaus, það var erfitt að skera teinana. Ég var búinn að skera á báða teinana og búinn að krafsa eitthvað í netið. Þá var báturinn bara að rúlla yfir um og Sigurjón tók það til bragðs að setja á fulla ferð og reyna að slíta þetta frá og það tókst. Það var tiltölulega auðvelt að rífa netið þegar búið var að skera á teinana og nótin slitnaði frá bátnum. Það var mugguveður og búið að melda þetta til flotans og mörg skip komin til okkar. En svo fór báturinn að rétta sig við þegar búið var að losa hann við pokann fullan af síld og þá fór þetta að lagast. Smátt og smátt dældist sjórinn úr lestinni, allar lensur voru á fullu og þetta bjargaðist allt. En það leit ekki vel út um tíma. Það var svo tæpt að það var búið að taka niður gúmmíbátinn. Það hefði verið heldur dapurt að missa nýja, fína bátinn í fyrsta kasti. En svo átti eftir að rótfiskast á þennan bát.

Heimabærinn. Norðfjörður um 1960. Hér leynir sér ekki að sjósókn …
Heimabærinn. Norðfjörður um 1960. Hér leynir sér ekki að sjósókn er snar þáttur í lífi bæjarbúa, slíkur er bátafjöldinn.

...............

Og svo var slegist um plássin

Með tímanum gekk betur að manna. Sumir heltust líka úr lestinni. Ég man þó ekki eftir að ég hafi þurft að reka neinn. Ég fékk mannskap um borð án þess að það þyrfti að hafa mikið fyrir því. Það breyttist um leið og fór að fiskast svona. Það kom forystugrein í Vísi í júlí 1971 og hún bar yfirskriftina Gullskipin. Þar var sagt frá þessum tveimur skipum, Barðanum og Hólmatindi. Sagt var frá verðmæti aflans sem þessi skip voru að koma með í land og tilgreint hvað kaupið var. Brátt var kominn biðlisti eftir plássum. Á ballinu á sjómannadaginn um vorið gerðist það að stór og sterkur maður sló niður næsta mann fyrir aftan mig af því að hann hélt að það væri ég. Ég fékk sem sagt ekki á kjaftinn, en það var fyrir mistök, hann ætlaði að berja mig. Þetta var einn af þeim sem ég hafði neitað um pláss.

Næsta vetur á eftir voru einu sinni ellefu skipstjórnarmenntaðir menn í áhöfninni. Það voru allir nema tveir vélstjórar og bátsmaður og líklega kokkurinn. Við vorum venjulega fimmtán í áhöfninni. Þessir menn voru nú ekki endilega ráðnir af því að þeir væru skipstjóramenntaðir, heldur ekki síst af því að þeir voru góðir netamenn. Það var mikið rifið á þessum árum, við vorum oft úti af Eystra-Horni og suðvestur af Hvalbak, þar var vondur botn en oft mikill fiskur. Við náðum fljótt tökum á þessu þannig að það gekk ágætlega en það þurfti oft að ná í nálakörfuna, það var oftar en ekki allt hengilrifið.

Við kepptum mikið við Hólmatind. Þar var þaulvanur skipstjóri sem hafði verið hæstur yfir flotann, einhver mesti aflamaðurinn, Auðunn Auðunsson. Ég var nú bara strákpjakkur þarna, tuttugu og sjö eða átta ára gamall og átti náttúrlega ekki að standa í honum. Við gerðum samkomulag um það að láta hvor annan vita af fiskiríi og öðru sem máli skipti. Svo byrjaði hann viku eða hálfum mánuði á eftir okkur á veiðum. Við héldum nokkuð góðu sambandi fyrstu dagana, svo allt í einu heyrði ég ekkert í honum.

Það næsta sem ég veit af honum er að hann er að tala við útgerðarmanninn, Aðalstein Jónsson á Eskifirði, Alla ríka, og Alli var að reyna að fá upp úr honum hvað hann væri búinn að fiska. Við vissum að Auðuni hafði litist illa á þessa tappatogara. Hann var þeirrar skoðunar að alvörutogari væri með hundrað og áttatíu feta kjöl eða meira. Hann hafði látið sig hafa það að fara um borð í Hólmatind en gerði samt alltaf lítið úr þessu.

Nú var Auðunn kominn suður á Banka, þá var kominn vertíðarfiskur. Hann kemur með Hólmatind kjaftfullan af stórþorski. Þetta var samskonar togari og Barði, jafnstór, keyptur á sama stað. Ég var þarna fyrir austan og bara kominn með lítið. Ég þekkti mig ekki þarna suður á Banka, ég hafði nú farið þangað en ég vissi að Auðunn þekkti þetta eins og lófann á sér. Ég var ekkert hissa á að hann fiskaði þar en mér fannst að hann hefði mátt segja mér frá þessu. En fyrst hann gerði það ekki þá hélt ég líka eftir mínum upplýsingum. Hann var búinn að fara tvo túra og koma með kjaftfullt skip, og ég bara í einhverri tregðu.

Léttur. Magni Kristjánsson, skipstjórinn sjálfur, léttklæddur í skipstjórastólnum um borð …
Léttur. Magni Kristjánsson, skipstjórinn sjálfur, léttklæddur í skipstjórastólnum um borð í Bjarti í janúar eða febrúar 1973.

Í moki

Þá lenti ég alveg í feikilegu fiskiríi í Hvalbakshallinu, við fylltum þar í tveimur túrum, í annað skipti var ég með mjög mikið, hundrað og sextíu eða sjötíu tonn. Svo var hrotan búin eftir þessa tvo túra sem tóku skamman tíma. Ég hringdi í Ísleif Gíslason, vin minn, hann var þá á trolli á Jóni Kjartanssyni, Einhverra hluta vegna náðum við mjög vel saman, við Ísleifur, höfðum margt saman að sælda, okkur sinnaðist aldrei. Hann sagði mér að þeir væru í moki norður á Sléttugrunni. Ég fór þangað og fljótlega lentum við í besta fiskiríi sem ég hef upplifað. Við fylltum Barðann á rúmum þrjátíu klukkutímum. Á trollinu voru tveir pokar hlið við hlið, kallaðir skálmar. Einu sinni fengum við þarna vel í skálmarnar, það var alveg glaðasól og blíða, tjarnsléttur sjór, við þurftum að hífa þetta inn og ég sá fljótlega hvað var mikið í þessu. Það kom í ljós að það var meira en við töldum mögulegt að hífa upp um skutrennuna og það yrði erfitt að koma þessu um borð.

En við vorum ekki á því að gefast upp og okkur Birgi kom saman um að það væri reynandi að setja grænsápu í rennuna, rennan yrði þá alveg flughál og hliðarnar á henni líka. Svo voru settar tvær talíur í þetta, Sveinn 2. stýrimaður var á annarri og Birgir 1. stýrimaður á hinni og svo var híft. Þegar þetta var komið um það bil í miðja rennu sprakk önnur skálmin, þetta var orðið svo þröngt. Þá hífðu þeir bara eins og þeir gátu og það hætti fljótlega að renna úr skálminni, við náðum yfir þrjátíu tonnum úr þessu hali en misstum eitthvað. Við vitum ekki hvort grænsápan skipti einhverju máli en þetta var að minnsta kosti tilraun. Við vorum ekki á því að gefast upp baráttulaust.

Suðureyjar. Hólmgeir Hreggviðsson stýrimaður, Magni og Þorsteinn Kristjánsson, stýrimaður, núna …
Suðureyjar. Hólmgeir Hreggviðsson stýrimaður, Magni og Þorsteinn Kristjánsson, stýrimaður, núna skipstjóri og útgerðarmaður á Eskifirði, spóka sig um, annað hvort í Honolulu á Hawaii-eyjum eða í Balboa í Panama, í heimferð Bjarts frá Japan.

.................

Ókennilegur kapall á botninum

Um sumarið þetta sama ár vorum við að toga á Bjarti milli Eystra- og Vestra- Horns, tíu til tólf mílur frá landi. Um nóttina, meðan ég var í koju, festi stýrimaðurinn trollið. Það var alveg rígfast, losnaði svo smátt og smátt, þó voru einhver þyngsli á þessu umfram það venjulega og þegar hann er að fá hlerann í gálga kemur í ljós að það er sver kapall vafinn utan um brakketið á öðrum hleranum. Hann var úr deigu efni og það var komin einhver kapmella á þetta. Þeir náðu sér í slípirokk og skáru á kapalinn öðrum megin. Það neistaði eitthvað í þessu þegar þeir voru að ná því í sundur, en strengurinn losnaði ekki frá. Þá tóku þeir það til bragðs að kútta á kapalinn hinum megin við hlerabrakketin. Strákarnir héldu eftir litlum bút og töldu sig heppna að vera lausir við þetta.

Ég tók bútinn sem þeir skáru úr og hafði samband við Landhelgisgæsluna. Þeir urðu alvarlega reiðir út af því að við skyldum kútta kapalinn, sögðu að við hefðum átt að láta þá vita. Ég sagðist bara ekkert hafa vitað hvað þetta væri, en auðvitað vissi ég það. Þetta var út af Stokksnesi, gamall njósnakapall, og svo kom náttúrlega í ljós þarna hvernig hann lá. Hann lá út frá Stokksnesinu og út í landgrunnsbrúnina, þaðan vestur fyrir Reykjanes og þar í land. Þetta var auðvitað hlustunarbúnaður, og á þessu voru magnarar og slíkt til að heyra í kafbátum og auðvitað til að verjast njósnum líka.

Verkfræðingur hjá sjónvarpinu sem Hörður hét Frímannsson fékk veður af þessu og hringdi í mig til að spyrja út í þetta og ég sagði honum að ég ætti bút úr kaplinum. Hann bað mig í guðanna bænum að senda hann suður og ég gerði það og var svo vitlaus að taka ekki smábút til að halda eftir, ég sendi honum allan bútinn. Það kom svo mynd af honum í einhverjum fréttaskýringaþætti um kvöldið. Þetta var kapall sem ekki var á almannavitorði að væri þarna. Það voru alls konar sögur en ekki vitneskja. Þetta var litið óhýrum augum af ákveðnum aðilum hér, sem voru á móti hersetunni og vildu allt þess háttar í burtu.

Um þrem vikum seinna vorum við á keyrslu á svipuðum slóðum. Þá var komið þangað torkennilegt skip, grátt að lit, stórt, áreiðanlega þrjú til fimm þúsund tonn. Það er eitthvað að dóla þarna og þegar við nálgumst það þá röðuðu borðalagðir offiserarnir sér út á brúarvænginn, allir með sjónauka. Aftan í skipinu var einhver kapall, strengur, og þá vissi ég auðvitað hvað var að gerast. Það var komið viðgerðarskip. Ég gerði það af prakkaraskap að setja trollið út, það var bara á kafi. Svo þóttist ég byrja að trolla þarna, ég vissi auðvitað nákvæmlega hvar kapallinn var. Þeir létu sem ekkert væri, hífðu bara inn þennan enda sem þeir voru með aftan í. Við dóluðum þarna aðeins, svo tókum við trollið upp og fórum í burtu án þess að fleira yrði til tíðinda. En þetta var svolítið skemmtilegt, alveg tafarinnar virði.

Innsigling. Börkur siglir lygnan sjó þar sem skipið ber við …
Innsigling. Börkur siglir lygnan sjó þar sem skipið ber við haf og land í senn.

Tíu árum seinna í Grimsby

Þessu þrátefli um landhelgina linnti auðvitað og það var samið. Tíu árum seinna fór ég einu sinni sem oftar til Grimsby með Börk að selja fisk. Við vorum búnir að fara í söluferð þangað áður, en þarna var tíu ára afmæli þorskastríðslokanna og við áttum alveg eins von á því að það væri hiti í einhverjum. Aðalblaðið í Grimsby hét Grimsby Evening Telegraph og þessara tímamóta var minnst þar. Þeir skömmuðust ekki mikið út í okkur, aðallega voru þeir reiðir við Wilson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Hattersleigh sem hafði verið sjávarútvegsráðherra, sögðu að þeir hefðu ekki staðið sig nógu vel.

Þegar túrinn var í undirbúningi hringdi ég í Guðmund Kjærnested sem var skipherra hjá Landhelgisgæslunni í þorskastríðinu. Við þekktumst ágætlega, bæði í gegnum störf okkar hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu og svo gegnum slaginn á miðunum. Guðmundur var á þessum tíma að vinna í utanríkisráðuneytinu og ég bauð honum að koma sem stýrimaður þennan eina túr, sagði honum að taka konuna með, þetta yrði bara gaman, stopp úti í nokkra daga. Guðmundur sló til og ákvað að taka þessu. Við vorum ekkert að veiða, við tókum bara trillufisk heima, fórum með hann út og seldum hann, áttum svo að fara í slipp.

Þetta var ansi skemmtilegt. Við stoppuðum í Pentlinum og skoðuðum okkur um þar, tókum útsýnishring. Þarna var glaða sól og blíða, hásumar, þarna eru rauð fuglabjörg, við fórum upp að einu sem er norðan megin í Pentlinum vestanverðum. Hann er ansi víður þar og straumurinn minni en hinum megin. Við stoppuðum um stund og einn skipverjinn, tónlistarkennarinn sem var heima, Ágúst Ármann, tók upp harmonikku og spilaði, svo var sungið. Geiri Lár var forsöngvari. Það var margt fólk um borð, þetta var mikill skemmtitúr. Svo var landað og farið í dokk, við vorum þarna í fjóra daga.

Þegar það fréttist hver væri stýrimaður á skipinu varð heldur en ekki uppi fótur og fit hjá blaðamönnunum. Daginn eftir var öll forsíðan á Grimsby Evening Telegram undirlögð með mynd af Guðmundi Kjærnested þar sem hann stóð brosandi við fánastöngina aftur á skipinu hjá okkur. Hann hafði bara gaman af þessu. Guðmundur var þannig maður, að þótt hann væri strangur og vildi hafa allt í röð og reglu þá var gamli aðmírállinn eins og einn af áhöfninni. Og þótt margir væru argir út í Wilson og Hattersleigh vorum við alveg látin í friði. Og eftir á að hyggja, sögðu Bretarnir, það hefði átt að vera hægt að fá miklu betri samning við Íslendinga og líklega var eitthvað til í því hjá blaðamönnunum.

.......................

Partí á sjómannadaginn – Kalkúttavalsinn

Það er ekki hægt að skiljast við þetta efni öðruvísi en að minnast á laugardagskvöldið fyrir sjómannadaginn. Þá vorum við hjónin alltaf með partí heima. Við áttum stórt hús og þar var gaman að horfa út, kappróðurinn var beint undan stofuglugganum. Það voru auðvitað allir í landi og það var haldið upp á daginn. Ég bauð alltaf skipshöfninni heim, af Bjarti fyrst og svo af Berki lengst af. Það var mikil veisla, svolítið borðað, en mest hlegið og drukkið. Þarna voru líka stundum skipshafnir hafrannsóknaskipa, ég þekkti marga þar, þeir komu í þetta partí, svo bættust við skipshafnir af varðskipum. Það voru allt að sjötíu til hundrað manns, fullt hús, ægilega gaman.

Í einni veislunni dansaði Þórður Þórðarson yngri Kalkúttavalsinn uppi á borði. Þetta var einhver „vals“ sem Birgir Sigurðsson sagðist hafa dansað einhvern tíma og hafði leikið þetta fyrir hann. Kalkúttavalsinn dansa fáir og það er ekki hægt að dansa hann fyrr en á fimmta eða sjötta glasi. Allir voru komnir í svo gott skap og okkur fannst að Þórður yrði að taka Kalkúttavalsinn, hann sagðist jú kunna hann. Hann var tregur til en lét að lokum til leiðast ef hann fengi að dansa hann á borðstofuborðinu. Hann fór svo upp á borðið og steppdansaði Kalkúttavalsinn þar af miklum krafti og listrænu innsæi. Borðið hélt og hann kláraði valsinn. Það var ógleymanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 393,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 202,84 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,20 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,49 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 156,22 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Guðborg NS 336 Grásleppunet
Þorskur 326 kg
Ýsa 66 kg
Skarkoli 47 kg
Samtals 439 kg
26.4.24 Oddverji SI 76 Grásleppunet
Grásleppa 1.934 kg
Þorskur 146 kg
Ýsa 42 kg
Skarkoli 30 kg
Ufsi 20 kg
Steinbítur 5 kg
Rauðmagi 1 kg
Samtals 2.178 kg
26.4.24 Hrönn NS 50 Grásleppunet
Grásleppa 2.040 kg
Þorskur 49 kg
Skarkoli 11 kg
Steinbítur 5 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 2.108 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 393,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 202,84 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,20 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,49 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 156,22 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Guðborg NS 336 Grásleppunet
Þorskur 326 kg
Ýsa 66 kg
Skarkoli 47 kg
Samtals 439 kg
26.4.24 Oddverji SI 76 Grásleppunet
Grásleppa 1.934 kg
Þorskur 146 kg
Ýsa 42 kg
Skarkoli 30 kg
Ufsi 20 kg
Steinbítur 5 kg
Rauðmagi 1 kg
Samtals 2.178 kg
26.4.24 Hrönn NS 50 Grásleppunet
Grásleppa 2.040 kg
Þorskur 49 kg
Skarkoli 11 kg
Steinbítur 5 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 2.108 kg

Skoða allar landanir »