Nissan Qashqai vinsæll

Jepplingurinn með einkennilega nafnið, Nissan Qashqai hefur notið feykilegra vinsælda …
Jepplingurinn með einkennilega nafnið, Nissan Qashqai hefur notið feykilegra vinsælda frá því hann var kynntur árið 2007

Nissan Qashqai er vinsælasti jepplingur landsins það sem af er árinu samkvæmt mánaðarlegri samantekt Umferðarstofu. Til og með júlí 2012 hafa selst 185 Nissan Qashqai-jepplingar en sá sem næstur kemst í þessum flokki bíla er Ford Kuga með 93 bíla selda. Aðrir bílar í þessum flokki hafa selst minna. Mikið hefur verið selt af bílum í þessum flokki til bílaleigna en Nissan Qashqai er einnig mest seldi jepplingurinn til einstaklinga.

Það er ekki bara á Íslandi sem Nissan bílar seljast eins og heitar lummur því sala Nissan í Evrópu hefur vaxið um 5% það sem af er árinu þrátt fyrir minni heildarsölu bíla í Evrópu í ár. Það sem af er árinu hefur Nissan selt 366.000 í Evrópu eða 18.000 fleiri bíla en á sama tíma árið 2011. Söluhæstu bílarnir hjá Nissan eru fjórhjóladrifnu Qashqai-jepplingarnir og Juke, sem er enn minni jepplingur, en þeir njóta mikilla vinsælda meðal ungra kaupenda og fjölskyldufólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina