Kraftmesti Rolls Royce til þessa

Ekki er auðvelt af finna myndir af bílnum, en í …
Ekki er auðvelt af finna myndir af bílnum, en í fréttinni er hlekkur á myndir af vinnuútgáfu. Rolls Royce

Lengi vel þótti Rolls Royce ekki ástæða til að gefa upp afltölur fyrir bíla sína, heldur stóð aðeins í bæklingum: „Hestöfl: Nógu mörg.“ Það er hinsvegar liðin tíð og nú er í pípunum aflmesti Rollsinn til þessa.

Hann mun fá heitið Wraith, sem er skosk mállýska og þýðir „draugur“, rétt eins og Ghost og Phantom sem eru fyrir á markaðnum. Þar sem Rolls Royce Ghost er í dag með 563  hestafla 6,6 lítra V-12 vél má ætla að Wraith verði einhvers staðar nálægt, eða yfir, 600 hestöflum.

Fyrsti Wraith-bíllinn kom á markað árið 1938 og var með 4,3 lítra vél (línu sexu) sem skilaði um 90 hestöflum (já, níutíu). Það er því óhætt að segja að nú kveði við annan tón.

Rolls Royce hefur farið mjög leynt með útlit bílsins, en samkvæmt þessum njósnamyndum er um að ræða tveggja dyra „coupé“. Hér er líklega á ferðinni „vinnuhestur“, en það eru bílar sem eru smíðaðir á hönnunarferlinu til að hægt sé að prófa fyrirliggjandi hönnun og gera breytingar, og því ekki víst að útlitið sé endanlegt.

Kynningarmyndband Rolls Royce gefur ekki mikið uppi, en það má skoða á heimasíðu framleiðandans.

Bíllinn verður frumsýndur á bílasýningu í Genf, þann 5. mars, og má búast við að sterkefnað fólk og bílaáhugafólk um allan heim láti sig það varða.

Meðal eigenda eldri útgáfa af Wraith má nefna Díönu prinsessu af Wales, en hún hafði til umráða 1979 árgerð af brynvörðum Rolls Royce Silver Wraith II sem skoða má hér.

mbl.is