20-30% bílviðgerða í svartri vinnu

Forystu bílgreinarinnar er svört vinna þyrnir í augum og þrýsta …
Forystu bílgreinarinnar er svört vinna þyrnir í augum og þrýsta því að við stjórnvöldum um aðgerðir svo taka megi á vandamálinu. Stærstur hluti verkstæða, eins og þar sem þessi mynd er tekin, eru með allt á hreinu. mbl.is/Golli

Bílgreinasambandið hefur sagt „svartri“ starfsemi við bílaviðgerðir stríð á hendur. Til þessa hefur sambandið fengið dræmar undirtektir hjá ríkisvaldinu í þeirri viðleitni sinni, að sögn Özurar Lárussonar framkvæmdastjóra BGS.

Í ljósi góðs árangurs í byggingariðnaði vegna verkefnisins Allir vinna hefur bílgreinin lagt það til við stjórnvöld oftar en einu sinni að bílaverkstæði geti tekið þátt í því verkefni með það fyrir augum að sporna við þeirri gríðarlegu aukningu á svartri vinnu sem átt hefur séð stað í bílaviðgerðum.

„Við höfum lagt þetta fram við fjármálaráðuneytið á fundum með tveimur ráðherrum og kynnt málið fyrir starfsmönnum í ráðuneytinu. Nú síðast í mars fól ráðherra starfsmönnum í ráðuneytinu að skoða málið, vel var tekið í erindið. Við munum halda málinu lifandi innan stjórnkerfisins. Það er mat manna sem starfa í greininni og hafa skoðað málið að á bilinu 20-30% allra viðgerða á bílum hér á landi séu unnin svart,“ segir Özur við Morgunblaðið.

Tekjur ríkissjóðs munu aukast

Hann segir ljóst, að tekjur ríkissjóðs af bílaviðgerðum muni aukast ef verkstæðum verði gert kleift að taka þátt í verkefninu og kostnaður almennings vegna viðgerða muni minnka. Þá sé það öryggismál að stoppa svörtu viðgerðarstarfsemina því ótal dæmi séu um að bílar sem lent hafa í höndum „fúskara“ hafi í raun verið stórhættulegir í umferðinni á eftir.

Özur segir í sjálfu sér skiljanlegt að fólk reyni allt til að draga úr kostnaði við viðhald og viðgerðir á einkabílnum og leiti þar af leiðandi oft í „bílaverkstæði fúskara“ sem spruttu upp í kjölfar hrunsins í bílskúrum og skemmum víða á höfuðborgarsvæðinu sem og um allt land þar sem boðið er uppá viðgerðir á svörtu.

Ófagmann- og hættulegt

„Við ætlum að fá Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst til að kafa ofan í þetta mál fyrir okkur með hliðsjón af þeim árangri sem náðst hefur í byggingariðnaðinum. Reyna að fá einhverja tölulega mynd á það sem unnið er á þessum svarta markaði, en ljóst er að um gríðarlega stórar fjárhæðir er að ræða sem ríkissjóður verður af í formi launatengdra gjalda og fleira. Þá er og hægt að fullyrða að flestir þeir sem starfa í þessum neðanjarðargeira þiggja atvinnuleysisbætur á meðan þær eru í boði,“ segir Özur einnig.

Hann segir að fullt af fagmönnum starfi í þessu svarta umhverfi en líka mjög mikið af mönnum með litla þekkingu. Tækjabúnaður svörtu verkstæðanna sé af skornum skammti þar sem hann er dýr.

„Sem leiðir af sér að vinnan er oftar en ekki mjög ófagmannleg og hættuleg. Í mörgum tilfellum hefur niðurstaðan verið sú að bíleigandi hefur staðið uppi með mun dýrari viðgerð en hefði þurft að vera þar sem skortur á þekkingu, tæknigögnum og tækjum hefur orðið til þess að bíllinn kom út verri en hann fór inn.“

Özur segir að fagmenn sem starfi í skúrnum sjái hagnað sinn í þessu á þann hátt að losna undan háum tekjusköttum.

Verkefnaskortur ofanjarðar

„Í einhverjum tilfellum hafa menn misst vinnu vegna verkefnaskorts verkstæða sem starfa ofanjarðar. Hins vegar hefur staðan þróast í þá átt á stærri verkstæðum að það vantar góða fagmenn þar sem þeir hafa leitað í auknum mæli í svarta hagkerfið. Þannig hefur skattakerfið, launaskattur og virðisaukaskattur snúist upp í andhverfu sína, menn hafa forðast samfélagslega ábyrgð vegna oftöku skatta og núið sér að svartri vinnu,“ segir Özur Lárusson. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina