Flýgur yfir ójöfnurnar

Ágúst Benediktsson hjá Autoparts.is ásamt Bjarka syni sínum sem, eins …
Ágúst Benediktsson hjá Autoparts.is ásamt Bjarka syni sínum sem, eins og Andri bróðir sinn, vinnur hjá pabba. mbl.is/Rósa Braga

Autoparts.is er ný verslun á Skemmuvegi 34A í Kópavogi sem sérhæfir sig bremsuhlutum. Eigendur fyrirtækisins eru Ágúst Benediktsson og Eyjólfur Melsteð og báðir miklir bílaáhugamenn.

Ágúst hefur brallað með bíla frá því áður en hann fékk bílpróf og Eyjólfur er rallökumaður og skartar m.a. Íslandsmeistaratitli frá árinu 2005.

Fyrirtækið hóf nýverið sölu á dempurum fyrir keppnisbíla og breytta jeppa sem það lætur framleiða sérstaklega fyrir sig. Þessir demparar eru sérstakir fyrir þær sakir að þeir eru fjölstillanlegir (triple bypass) en slíkir demparar hafa verið notaðir í Baja-rallkeppnum í Ameríku sem og Dakarrallinu.

Bylting í fjöðrun bifreiða

„Mín reynsla af þessum fjöðrunarbúnaði er sú að aksturseiginleikar bílsins hafa batnað til muna og má segja að hann hreinlega fljúgi yfir ójöfnur sem ég áður hefði þurft nánast að læðast yfir. Þetta er hreint út sagt algjör bylting í fjöðrun bifreiða,“ segir Ágúst um demparana sem hann setti nýlega í mikið breyttan Range Rover-jeppa sem hann á.

„Það hefur verið lítið framboð á dempurum sem þessum í varahlutaverslunum á Íslandi. Við ætlum að breyta því og bjóða formlega upp á þá í verslun okkar í sumarlok. Þess má geta að síðasta vörusending er rétt að seljast upp. Í sumum tilvikum er um að ræða sérsmíði sem hentar uppsetningu viðkomandi bíls en þá getur ferlið tekið um það bil tvo mánuði. Til að nefna nýleg dæmi þá er verið að setja þessa dempara í 54 tommu breyttan Ford pick-up og 46 tommu breyttan Toyota Landcruiser-bíl og verður spennandi að fá að fylgjast með þeim í framtíðinni.“

Recit Bypass og Coilover-dempararnir eru með allt frá 20 sentimetra slaglengd upp í 40 sentimetra slaglengd. Dempararnir eru fáanlegir í tveggja og tveggja og hálfs tommu útfærslu. Bypass-demparar hafa þann kost að vera þokkalega mjúkir í venjulegum akstri en þegar mikið gengur á og fjöðrunarsviðið er allt í notkun stífna þeir. Það gerist þegar stimpillinn nær ákveðinni stöðu inni í strokknum. Það gerist á þremur mismunandi stöðum í demparanum, í lok sundurslags og í tveimur stigum við lok samsláttar. Til þess að ná sem mestum árangri með þessa dempara þarf þó að eyða nokkrum tíma í að stilla þá. Finna þarf hentugan stað og láta bifreiðina fjaðra vel og mikið. Recit offroad-dempurunum er hægt að breyta, bæta og yfirfara að vild. Þess má geta aðAutoparts.is selur sitt eigið vörumerki undir nafninu Recit, bæði í Noregi og á Íslandi. Recit-vörurnar hafa verið í sölu í rúmt ár og hafa reynst vel.

Í flestar gerðir

„Við framleiðum meðal annars bremsuklossa og seljum í flestar gerðir jeppa og fólksbifreiða. Allir bremsuklossarnir okkar eru E-merktir og uppfylla tilheyrandi Evrópureglugerðir. Innan skamms munum við opna netverslun þar sem viðskiptavinum okkar verður gert kleift að finna og kaupa varahluti út frá bílnúmeri,“ sagði Ágúst.

njall@mbl.is

Dempararnir komnir á sinn stað undir bílnum. Allt hossast mjúkt.
Dempararnir komnir á sinn stað undir bílnum. Allt hossast mjúkt. mbl.is/Rósa Braga
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: