Nissan og Renault seldu 100.000 rafbíla

Smái borgabíllinn Renault Zoe fær góðar viðtökur í Frakklandi.
Smái borgabíllinn Renault Zoe fær góðar viðtökur í Frakklandi. mbl.is/Renault

Franski bílsmiðurinn Renault og japanska dótturfyrirtækið Nissan höfðu selt eitt hundrað þúsund rafbíla á árinu við júnílok. Þetta segir sameiginlegur forstjóri beggja fyrirtækjanna, Carlos Ghosn.

Þetta kom fram í ræðu sem Ghosn hélt á dögunum á ráðstefnu í háskólabænum Aix-en-Provence í Frakklandi. Þar sagði hann meðal annars, að ekki væri fyrirsjáanlegt að almenn bílasala næði sér á strik í Evrópu á næstu misserum. „Ég er að undirbúa Renault fyrir nokkurra ára stöðugleika í besta falli,“ sagði hann.

Raunsæi en ekki veðmál

Þrengri fjárhagur heimilanna og vaxandi atvinnuleysi hefur latt neytendur í Frakklandi og öðrum Evrópuríkjum til stórkaupa. Er svo komið fyrir bílgreininni að bílamarkaðurinn hefur skroppið saman um fimm ára skeið og hefur vart verið minni í tvo áratugi.

Ghosn hefur veitt hærra hlutfalli af fjármunum Renault og Nissan í rafbílatækni en aðrir fjöldaframleiðendur bíla. Hann segir þær fjárfestingar „...ekki snúast um veðmál, heldur raunsæi.“

Innviðir verði bættir

Fyrr á árinu hleypti Renault rafbílnum Zoe af stokkum og hóf markaðssetningu á honum 6. júní. Á fyrstu fjórum vikunum seldust rúmlega 3.000 eintök í Frakklandi og álíka mörg annars staðar í Evrópu. „Zoe selst vel, auðvitað erum við alltaf óþolinmóð í biðinni eftir hærri sölutölum, en við höfum þegar selt meira en 6.000 eintök í Evrópu,“ sagði Ghosn á efnahagsráðstefnunni í Aix.

Zoe kostar frá 15.700 evrum og segist Ghosn gera ráð fyrir að raunveruleg eftirspurn verði miklu meiri þegar innviðir rafbílavæðingar verði bættir í Frakklandi með hleðslustöðvum sem víðast. Hann skírskotaði meðal annars til þeirra miklu vinsælda sem rafbíll Nissan, Leaf, hefur notið, en hann hafi selst í um 60 þúsund eintökum á stuttum tíma.

agas@mbl.is

Smái borgabíllinn Renault Zoe fær góðar viðtökur í Frakklandi.
Smái borgabíllinn Renault Zoe fær góðar viðtökur í Frakklandi. mbl.is/Renault
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: