Strætó fær þráðlausa rafhleðslu á ferð

Rafstrætóinn kemur inn yfir ræmu þar sem rafhleðslu er að …
Rafstrætóinn kemur inn yfir ræmu þar sem rafhleðslu er að fá upp úr svörtu malbikinu þótt á ferð sé. mbl.is/afp

Ætla mætti að þráðlaus rafhleðsla væri sniðin að snjallsímum og spjaldtölvum, en í borginni Gumi í Suður-Kóreu njóta öllu stærri tæki góðs af þeirri tækni; strætisvagnar.

Tveir vagnar, „viðtengdir rafbílar“ (OLEV), þjóna á einni strætóleið borgarinnar og fá þeir rafhleðslu með því að aka yfir sérstakan búnað í brautarmalbikinu. Fullyrt er að búnaður sem slíkur hafi hvergi annars staðar í veröldinni verið tekinn í notkun.

Rafmagn í malbikinu

Rafstrætóleiðin í Gumi er 25 km löng og hafa raflínur verið lagðar ofan í malbikið, rétt undir yfirborði þess. Er vagninn ekur yfir þær flyst rafmagn með segulspennu upp í bílinn. Ekki þurfa þeir að stoppa til að fá hleðslu, hún skilar sínu þótt vagninn sé á venjulegri ferð.

Tæknin var þróuð með það í huga að geta notað rafstraum til að knýja strætisvagn án þess að hann þyrfti að vera búinn stórum hefðbundnum rafbílageymum. Eru rafhlöður strætisvagnanna tiltölulega litlar – ekki nema þriðjungur geyma rafbíla. Þær geta hins vegar reitt sig á stöðugan straum frá raflögnum sem eru 17 sentímetra undir rútunum.

Til að byrja með ræður Gumiborg yfir aðeins tveimur OLEV-rafstrætisvögnum en áformar að bæta 10 slíkum við leiðakerfi borgarinnar innan tveggja ára. Ekki þarf að fræsa upp nema 15% vegar til að koma rafköplum fyrir í malbikinu og ber ekkert á búnaðinum. Einnig mætti leggja loftlínur í staðinn fyrir að grafa kaplana niður í veginn.

Breiðist kannski út

Eftir er að koma í ljós hvort aðrar borgir í Suður-Kóreu fylgi í kjölfar Gumi, eða hvort nettengdir rafvagnar eins og þar í borg eru eigi eftir að breiðast út til annarra landa.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: