Togaði sig inn í metabækur

Ökumaður Nissan Patrol jeppans fagnar metinu.
Ökumaður Nissan Patrol jeppans fagnar metinu.

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru komin í heimsmetabók Guinness, þökk sé jeppa af gerðinni Nissan Patrol eins og þeim sem Íslendingum eru að góðu kunnir.

Jeppinn komst í metabækur með því að draga 170 tonna vöruflutningaflugvél eftir flugbraut Sharjah-flugvallarins. Aðeins þurfti hann að draga Ilyushin Il-76 flugvélina 55 metra til að setja metið.

Um var að ræða alveg óbreyttan bíl, eins og hann kemur af færibandinu, utan þess að sett var á hann krókur er passaði við dráttarstöng sem fest var í nefhjólsbúnað  þotunnar.

Fullhlaðin af vörum og eldsneyti er heildarþungi flugvélarinnar 170 tonn og vafðist það ekki fyrir Patroljeppanum að draga hana tilskilda vegalengd, svo sem sjá má á myndbandinu hér á eftir. Bætti hann gamla metið um 15 tonn en það átti Volkswagen Touareg jeppi.

Það met var sett fyrir fimm árum er Touareginn dró Boeing 747 þotu á þýskum flugvelli.

Nissan Patrol jeppinn dregur þotuna þungu.
Nissan Patrol jeppinn dregur þotuna þungu.
mbl.is