40 milljónir Toyota Corolla seldar

Toyota Corolla af fyrstu kynslóð, frá 1966.
Toyota Corolla af fyrstu kynslóð, frá 1966.

Toyota hefur selt rúmlega 40 milljónir eintaka af hinum ýmsu kynslóðum Corolla frá því framleiðlsa á bíl með þessu nafni hófst í nóvember árið 1996. Rauf Corolla þennan múr í júlí er samtals 40,1 milljón eintaka hafði verið seld.

Í dag er Corollabíllinn framleiddur í 15 bílsmiðjum Toyota víðs vegar um heim. Skerfur hans í heildarsölu í 76 ára sögu Toyota er um fimmtungur. Fyrstu bílarnir voru smíðaðir í nýrri bílsmiðju sem hóf starfsemi 1966 í Takaoka í Japan og var reist með framleiðslu Corolla eingöngu í huga.

Aðeins tveimur árum seinna hófst framleiðsla bílsins í Ástralíu og Malasíu en frágangur hans tók mið af aðstæðum og kröfum viðkomandi svæða. Árið 1968 hafði smíðin aukist úr 480.000 bílum á ári í 1,1 milljónir. Styrkti sala bílsins fyrirtækið mjög og stuðlaði að örum vexti þess.

Forsvarsmenn Toyota segja að lykillinn að velgengni Corolla sé sá, að bíllinn hafi verið hannaður og hugsaður út frá þeim rauða þræði, að hann yrði að færa eigendum og notendum hamingju og vellíðan.

Corolla var fyrst flutt út til Bandaríkjanna 1968 og aðeins fjórum árum eftir að bílnum var hleypt af stokkum var árleg sala hans orðin á aðra milljón eintaka. Corolla hefur selst árlega í meira en milljón eintaka frá og með 2002. Um heim allan í fyrra voru 3.180 Corollur seldar dag hvern.

mbl.is

Bloggað um fréttina