Löggan sektaði leikfangabíl

Lögreglan í bænum American Fork í Utah í Bandaríkjunum tekur starf sitt mjög alvarlega. Svo alvarlega reyndar að þegar sjö ára stelpa gleymdi leikfangabílnum sínum fyrir framan heimili sitt, skildi lögreglan eftir sektarmiða fyrir yfirgefið ökutæki.

Í fyrstu mætti halda að um grín og glens væri að ræða, en þegar í ljós kom að ekki stendur til að falla frá sektinni, fór gamanið að kárna. Lögreglan hefur nefnilega heimild til að gera ökutækið upptækt og fangelsa eigandann, sé hún ekki greidd.

Reyndar má færa fyrir því rök að um ökutæki sé að ræða, enda er leikfangabíllinn rafdrifinn og rúmar eigandann og systur hennar í sæti. En lögregluþjónn sem gerir ekki greinarmun á leikfangi og fólksbíl ætti kannski að íhuga að sækja um starf sem reynir ekki eins mikið á almenna skynsemi.

Frétt á Carbuzz.com

mbl.is

Bloggað um fréttina