Mikill verðmunur á bíllyklum

Í nýlegri könnun FÍB kemur fram að mikill verðmunur er á milli bíltegunda þegar kemur að því að endurnýja lykla. Að sama skapi getur verið mikill munur á verði eftir því hvort lykillinn er keyptur hjá umboði eða lyklasmið.

Könnunin fór fram 27. nóvember og var leitað til umboða og tveggja lásasmiða (Neyðarþjónustan og Lásaþjónustan). Spurt var hversu mikið kostaði að láta smíða nýjan lykil að fólksbíl, með eða án fjarstýringar. 

Spurt var um verð annars vegar að lykli án fjarstýringar, og hins vegar að lykli með fjarstýringu. Í báðum tilfellum var spurt um verð eftir að búið væri að forrita og kóða lykilinn/fjarstýringuna, þannig að þau væru tilbúin til notkunar.

„Í ljós kemur að verðmunur er mjög mikill bæði milli einstakra bílategunda og milli þeirra sem veita þessa þjónustu. Þjónustan er yfirleitt dýrari hjá bílaumboðunum en óháðum lykla- og lásasmiðum og stundum verulega dýrari,“ segir í tilkynningu frá FÍB.

Dýrasti lykillinn að Lexus

Spurt var um 24 tegundir bíla í könnuninni, af árgerð 2010. Mikill verðmunur reyndist vera milli einstakra bíltegunda hjá umboðunum.

Dýrasti lykill með fjarstýringu frá umboði var fyrir Lexus RX450H - 81.140 krónur. Búnaðurinn reyndist ekki fáanlegur hjá lásasmiðunum.

Spurt var um fullt verð á lyklum ásamt fjarstýringu og verð á einstökum lyklum án fjarstýringar. Verðið skyldi miðast við að allt virkaði og væri tilbúið til notkunar – hvort heldur sem væri fjarstýring og/eða stakur lykill eftir atvikum. Gert var ráð fyrir að þjónustubeiðandi ætti fyrir einn lykil að dyra- og straumlásum bílsins.

Ódýrasti lykillinn með fjarstýringu frá umboði og sá ódýrasti í þessari könnun er fyrir Suzuki Swift og kostaði hann 23.500 krónur hjá umboðinu. Búnaðurinn reyndist ófáanlegur hjá óháðu lásasmiðunum.

Næstódýrasti lykillinn í könnuninni er fyrir Chevrolet Spark og kostar 24.813 krónur. Hann er heldur ekki í boði hjá óháðu lásasmiðunum.

Umboðin yfirleitt dýrari

Sem dæmi um verðmuninn á lyklum með fjarstýringu milli umboðs og óháðu lásasmiðanna má nefna lykil fyrir Toyota Yaris. Hjá Neyðarþjónustunni kostar hann 25.000 krónur. Hjá umboðinu kostar hann 52.318 krónur.

Annað dæmi er Mitsubishi Pajero. Hjá Neyðarþjónustunni kostar lykill með fjarstýringu 32.500 krónur en hjá umboðinu 44.812 krónur.

Þriðja dæmið er svo Honda CR-V. Lykill með fjarstýringu kostar 27.000 krónur hjá Lásaþjónustunni, 32.500 krónur hjá Neyðarþjónustunni og 66.261 krónur hjá umboðinu.

Að sumum bílum eins og t.d. Mercedes Benz-bílum er lykillinn hreinn rafeindalykill en með honum fylgir sérstakt lykiljárn sem er einskonar neyðarlykill til að opna bílinn ef hann er straumlaus.

Hjá Neyðarþjónustunni fengust þær upplýsingar að í þeim tilfellum að enginn lykill fyndist að bíl þá bættist við verðið kostnaður við að afla rétts skurðarnúmers frá framleiðanda eða innflytjanda bílsins og rétts kóða til að forrita fjarstýringuna.

Mikill munur á milli tegunda

Eins og sjá má af könnuninni hér að neðan þá kostar lykill með fjarstýringu fyrir Mazda 2, 66.852 krónur. Lykil án fjarstýringar er hægt að fá á 9.400 krónur hjá Neyðarþjónustunni.

Mismunurinn er 57.452 krónur sem segja má með réttu að sé raunverulegt verð fjarstýringarinnar. Athyglisvert er að lykillinn án fjarstýringar kostar í umboðinu 24.242 krónur og er þannig tæpum 15 þúsund krónum dýrari en sami lykill hjá Neyðarþjónustunni.

Annað dæmi er Chervrolet Spark. Lykill að honum með fjarstýringu kostar 24.813 krónur í umboðinu. Lykill án fjarstýringar kostar 10.000 krónur hjá Lásaþjónustunni en fæst ekki í umboðinu. Mismunurinn er 14.813 krónur.

Þegar borið er saman verð á lyklum með fjarstýringu fyrir smábílana Mazda 2 (kr. 66.852) og Chevrolet Spark (kr. 24.813) þá er verðmunurinn rúmlega 42 þúsund krónur.

Sjá könnun FÍB

mbl.is