Reyndi við nýtt met en brotlenti eftir 110 metra flug

Chicherit undir stýri. Myndin er úr Dakar-ralli.
Chicherit undir stýri. Myndin er úr Dakar-ralli. wikipedia.org

Frakkinn Guerlain Chicherit gerði í gær tilraun til að bæta heimsmet Tanners Fousts í langstökki á bíl. Því miður gekk það ekki sem skyldi, bíllinn endastakkst og fór að minnsta kosti átta veltur áður en hann staðnæmdist.

Chicherit slapp lifandi frá óhappinu, og reyndar mjög lítið meiddur. Honum var þó haldið á sjúkrahúsi í nótt, til öryggis. Í Facebook-færslu, sem hann birti í gærkvöldi, vitnar Chicherit í Winston Churchill og skrifar: „Velgengni er ekki varanleg, mistök eru ekki banvæn: Það er hugrekkið til að halda áfram sem skiptir máli.“

Met Tanners er 101,2 m en Chicherit stefndi á 110 metra. Tilraunin fór fram á Tigens-skíðasvæðinu í Frönsku Ölpunum, en þar er Chicherit á heimavelli. Hann er nefnilega ekki bara mikill skíðakappi (fjórfaldur heimsmeistari á freestyle-skíðum, svo eitthvað sé nefnt), heldur var það á sama stað sem hann fór heljarstökk afturábak á bíl í fyrra. 

Chicherit var líklega fyrstur manna til að framkvæma það stökk. Hér fyrir neðan má sjá myndbönd frá misheppnuðu tilrauninni á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina