Ford Focus mest selda módelið

Ford Focus seldist bíla mest bæði 2012 og 2013.
Ford Focus seldist bíla mest bæði 2012 og 2013. mbl.is/Ford

Bílasala ársins 2013 hefur nú verið gerð upp og kemur þá í ljós, að mest selda bílamódelið var Ford Focus. Var 1,1 milljón eintaka afhent kaupendum. Focus var einnig söluhæstur 2012.

Samkvæmt útreikningum LMC Automotive hefur Ford selt rúmlega 12 milljónir Focus-bíla frá því hann kom fyrst á götuna í júlímánuði 1998 en í Bandaríkjunum var hann fáanlegur frá 1999.

Það er til marks um vinsældir Focus að meðal þeirra sem brúka bíl af þessu tagi til að reka erindi sín er Frans páfi.

Hermt er að Ford sé með nýja kynslóð bílsins á prjónunum og sé hans að vænta á götuna einhvern tíma á árinu 2017. Segir einn af stjórnendum Ford, að sú útgáfa verði ekki mjög frábrugðin þeim fyrri.

Toyota Corolla seldist næstmest allra fólksbíla í fyrra, eða í 1.001.141 eintaki. Corolla sá fyrst dagsins ljós árið 1966 og var bíllinn sá söluhæsti í heiminum 1974. Síðan þá hefur hann verið meðal mest seldu bíla ár hvert.

Í þriðja sæti varð Volkswagen, þó ekki Golf, heldur Jetta-bíllinn. Það merki hefur verið við lýði frá 1979 og á sumum mörkuðum bíllinn verið seldur sem Bora eða Vento. Að sögn LMC seldi VW 906.000 eintök af þessum bíl 2013.

Í næstu sætum urðu Hyundai Elantra sem seldist í 866.000 eintökum, Chevrolet Cruze með 729.000 eintök, Toyota Camry með 728.230 eintök, Volkswagen Golf með 720.440 eintök, Ford Fiesta með 705.287 bíla, Honda CR-V sem seldist í 697.955 eintökum og í tíunda sæti varð Volkswagen Polo en af honum voru afhent 686.000 eintök. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: