Nýrri bíla og hærra skilagjald

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambands Íslands, …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambands Íslands, á ársfundi sambandsins á Hótel Natura í gær.

Á ársfundi Bílgreinasambandsins í gær sagði formaður sambandsins, Jón Trausti Ólafsson, að stjórnvöld þyrftu að sjá til þess að stöðugleiki ríkti í kringum umhverfi bílgreinarinnar.

Nefndi hann sem dæmi að skattheimta þyrfti að vera eðlileg, og sambærileg við þær þjóðir sem Íslendingar bera sig saman við, og að tryggja þyrfti að vörugjald af öryggisbúnaði bifreiða væri í lágmarki. „Svo almenningur veigri sér ekki við nauðsynlegt viðhald á búnaði sem hefur úrslitavald þegar mest á reynir,“ sagði Jón Trausti í ræðu sinni.

Þá gerði hann að umtalsefni meðalaldur skráðra fólksbíla á Íslandi og sagði hann vera hátt í 13 ár. Jón Trausti sagði mikilvægt að yngja upp flotann og að það myndi skila sér í lægri eldsneytis- og rekstrarkostnaði og meira umferðaröryggi, auk þess sem ynging myndi skila sér í umhverfismildari valkostum.

„Ein af þeim leiðum sem við höfum bent stjórnvöldum á er að styðja við förgun eldri bifreiða með því að hækka skilagjald sem er endurgreitt þegar bílum er fargað í endurvinnslustöðvum, slíkt mun hafa jákvæð áhrif,“ sagði Jón Trausti á ársfundinum, sem fór fram í gær.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem var gestur fundarins, sagði að stjórnvöld þyrftu að taka margt til skoðunar í því sem formaður Bílgreinasambandsins nefndi.

Þá sagði hann að nauðsynlegt væri að tryggja jafnvægi á endursölumarkaði og að þröf væri á að huga að auknu menntunarstigi og endurmenntun innan bílgreinarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina