„Guðir“ kenna vélmennum

Akio Toyoda, forstjóri Toyota, vill auka gæði með því að …
Akio Toyoda, forstjóri Toyota, vill auka gæði með því að fá fleiri mennskar hendur í framleiðsluna. KAZUHIRO NOGI

Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur ákveðið að leysa suma þjarka sína af hólmi með mennsku starfsfólki. Tilgangurinn er að auka gæði framleiðslunnar og efla hugvit og skilvirkni innan fyrirtækisins.

Breytingarnar eru í samræmi við stefnu Akio Toyoda, forstjóra Toyota, um að snúa fyrirtækinu frá því að einblína á vöxt en leggja þess í stað aftur áherslu á gæði og skilvirkni. Hann er barnabarnabarn Sakichi Toyoda, stofnanda Toyota.

Vélar læra ekki sjálfar

Til að hrinda breytingunum í verk valdi Toyoda Mitsuru Kawai, sem hefur verið í hálfa öld hjá fyrirtækinu. „Þegar ég byrjaði voru hér reyndir iðnmeistarar, sem kallaðir voru guðir. Þeir gátu búið til hvað sem er,“ segir Kawai í samtali við Bloomberg.

Guðirnir, Kami-sama eins og þeir eru kallaðir á japönsku, halda nú innreið sína í verksmiðjur Toyota á ný. Það kann að virka sem skref afturábak, í fyrstu, en með því að auka verkkunnáttu starfsmanna öðlast þeir tækifæri til að bæta framleiðsluferlið.

Í dag er hlutverk flestra starfsmanna Toyota að mata þjarka á íhlutum, sem þeir svo raða saman. „Við getum ekki bara treyst á vélar, sem endurtaka bara sömu verkin aftur og aftur. Til þess að verða meistari yfir vélunum þarf að hafa kunnáttu og færni sem hægt er að kenna þeim,“ segir Kawai.

„Alsjálfvirkar þróast ekki af sjálfu sér,“ segir Takahiro Fujimoto, prófessor við háskólann í Tókýó. „Vélvæðingin sem slík skaðar ekki, en að halda sig eingöngu við ákveðna vélvæðingu verður til þess að umbætur og kaizen (stöðugar framfarir) detta út.“

Spara tíma og efni

Og það verður hlutverk starfsmanna sem vinna nú, til dæmis, á 100 nýjum vinnustöðvum í verksmiðjum Toyota um allt Japan. Þar vinna starfsmennirnir íhluti með handafli og verkfærum, finna nýjar leiðir og lausnir á gömlum vandamálum.

Í smíðadeild í verksmiðju í Honsha, sem Kawai stýrir, eru sveifarásar búnir til með því að berja, snúa og beygja málma, í stað sjálfvirkni sem áður var notuð við smíðina. Sú reynsla og þekking sem fékkst við það verkefni hefur stytt framleiðslutíma sveifarásanna um 96% og minnkað þann málm sem fellur til í afganga um 10%.

Þjarkar sjá enn um megnið af framleiðslunni, en með því að læra að smíða hlutina í höndunum geta starfsmennirnir ljáð framleiðsluferlinu nokkuð sem þjarkarnir geta ekki – sjálfstæða hugsun. En til þess að hún nýtist þarf að gefa fólkinu tækifæri til að taka meiri þátt í ferlinu en að mata bara vélar og ýta á takka.

„Ef einhverntíma kemur fram tækni sem er gallalaus og skilar alltaf fullkomnum afurðum, þá erum við tilbúin til að taka í slíkar vélar í notkun,“ segir Kawai og bætir við: „Það er ekki til sú vél sem er alltaf pottþétt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina