Íhuga að neyða flutningabíla inn á hraðbrautirnar

Frakkar vilja ná tekjum af akstri erlendra flutningabíla um land …
Frakkar vilja ná tekjum af akstri erlendra flutningabíla um land sitt. mbl.is/afp

Frakkar íhuga - við lítinn fögnuð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) - að neyða erlenda vöruflutningabíla af almennum þjóðvegum og inn á hraðbrautir þar sem vegatollar eru innheimtir.

Þessa leið skoða yfirvöld að fara í stað þess að skattleggja þungaflutninga almennt en áformum þeim var frestað sl. haust eftir mikla ólgu og hörð mótmæli í Frakklandi.

Siim Kallas, sem fer með samgöngumál í framkvæmdastjórn ESB í Brussel, gagnrýnir nýju áformin og segir það ekki ganga að koma upp kerfi sem mismunar flutningabílum eftir því hvort þeir eru útlenskir eða franskir.

Segolene Royal, nýskipaður umhverfisráðherra og ráðherra sjálfbærrar þróunar, lætur aðvaranir Kallas sem vind um eyru þjóta og segir það muni endurreisa heilbrigða samkeppni að reka flutningabílana útlensku inn á hraðbrautir. 

„Þegar útlendur flutningabíll ekur inn í Frakkland, eftir að hafa fyllt olíutankana í Belgíu, og þverar landið á vegum sem franskir skattgreiðendur hafa borgað, og tankar að nýju kominn til Spánar, borgar hvorki skatta á franskt eldsneyti né vegatolla. Í raun borga franskir flutningabílar allar vegabætur. Við verðum að láta alla bera skerf af því, sérstaklega þá sem borga ekki neitt í dag,“ segir Royal. 

Hún bætir því við, að tekjur sem fengjust með því að fleiri útlendir vöruflutningabílar notuðu hraðbrautirnar yrðu brúkaðar til að efla samgöngukerfið.

Frá 1. apríl hafa útlendir flutningabílar þurft að borga nýtt gjald fyrir afnot af vegum þar í landi. Gripið var til þeirrar ráðstöfunar vegna gjalda sem lögð eru á breska flutningabíla annars staðar í Evrópu.

mbl.is