Metsala hjá Toyota

Toyota Levin á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Peking.
Toyota Levin á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Peking. mbl.is/afp

Japanski bílsmiðurinn Toyota, stærsti bílaframleiðandi heims, seldi rúmlega 10 milljónir bíla á 12 mánaða tímabili til síðastliðinna marsloka.  Það hefur ekki áður gerst í sögu Toyota.

Það varð til að færa fjör í söluna, að í hana hljóp verulegur fjörkippur á heimamarkaði í Japan er landsmenn endurnýjuðu farkosti sína áður en hækkun söluskatts úr 5% í 8% kom til framkvæmda 1. apríl.

Toyota kveðst hafa selt 10,13 milljónir bíla á tímabilinu sem er 4,5% aukning frá sama tímabili ári fyrr. Sérfræðingar um bílsmíði telja að hér sé um met að ræða. Þeir segja að helstu keppinautar Toyota, Volkswagen og General Motors, hafi ekki selt meira en 10 milljónir bíla á neinu 12 mánaða tímabili.

Árið 2013 seldi Toyota fleiri bíla en nokkur annar bílsmiður, eða 9,98 milljónir eintaka.

Á heimamarkaði í Japan óx salan á 12 mánaða tímabilinu um 3,9% í 2,4 milljónir eintaka. Er það þriðja árið í röð sem Toyota eykur bílasölu í Japan. Hækkun söluskattsins 1. apríl síðastliðin var fyrsta breytingin á honum frá því á tíunda áratug síðustu aldar.


mbl.is