Fyrsti íslenski bílamálarinn til skiptináms erlendis

Árdís Ösp Pétursdóttir hefur átt marga óvenjulega bíla í gegnum …
Árdís Ösp Pétursdóttir hefur átt marga óvenjulega bíla í gegnum tíðina. Bíllinn sem hún á í dag er sprækur Skoda Octavia vRS Turbo frá 2002.

Í Borgarholtsskóla er bifreiðasmíði, bifvélavirkjun og bílamálun á meðal þess sem kennt er. Töluvert fleiri karlkyns nemendur stunda nám við bíliðngreinar en alltaf eru einhverjar konur í náminu.

Árdís Ösp Pétursdóttir er ein þeirra og hún er að læra bílamálun. Bílamálun er löggilt iðngrein og tekur námið að jafnaði þrjú ár að meðtöldu grunnnámi bíliðna. Árdís á eina önn eftir og vinnur hjá Bílasprautun Íslands í Garðabæ. Hún hefur haft áhuga á bílum eins lengi og hún man eftir sér og það kom því engum sem hana þekkir á óvart að hún skyldi læra bílamálun.

„Ég lék mér með bíla í sandkassanum og var bara um þriggja eða fjögurra ára þegar ég benti mömmu á glænýjan Trans Am og sagðist ætla að eignast svona bíl þegar ég yrði stór,“ segir hún og hún hefur átt nokkra bíla í svipuðum dúr. „Ég eignaðist Camaro frá sama tímabili.“

Snemma beygist krókurinn og í dag er áhuginn sá sami og jafnvel meiri ef eitthvað er.

Hot rod og Rat rod

Árdís hafði lengi hugsað sér að fara út í „custom fabrication“, að breyta bílum og bæta.

„Mitt stærsta áhugasvið er í gömlu amerísku bílunum og Hot rods og Rat rods. Mig hefur lengi langað að vera hluti af veröld sem snýst um Hot rods og er mjög hrifin af því sem viðkemur sjötta og sjöunda áratugnum,“ segir Árdís sem vonast til að vettvangur verði til fyrir slíkt sport hér á landi.

„Ég væri alveg til í að sjá meiri fjölbreytni hérna og veit að það eru til nokkrir hot-rodar hérna heima og nokkrir að dunda sér við að smíða þá. Það er bara spurning hvar minn staður verður í framtíðinni.“

Sjálf hefur hún aðeins keppt í kvartmílunni og ætlar sér að gera meira af því í framtíðinni.

Sunny GTi fyrsti bíllinn

Það kemur heldur á óvart hversu magnaða bíla Árdís hefur átt síðan hún tók bílpróf og var fyrsti bíllinn ekki af verri endanum. „Það var Nissan Sunny GTi, fimm dyra. Ég átti hann í um tvö ár,“ segir hún.

Af þeim bílum sem hún hefur átt er erfitt að gera upp á milli þeirra þegar hún er spurð um eftirminnilegasta bílinn. Þess vegna eru þeir tveir. „Annar er ´73 árgerð af Mustang Mach 1 með 460 vél sem var búið að bora og dunda aðeins í. Hún var vel spræk með opnum sílsapústum og krómfelgum en boddíið var alveg ónýtt að aftan. Ég hafði miklar vonir um að ég gæti geymt hann og gert upp seinna en vegna aðstæðna varð ég að láta hann fara,“ segir hún og glöggt má greina að henni þótti sárt að láta bílinn frá sér.

„Hinn var einn af fáum þriðju kynslóðar Camaro sem voru beinskiptir og hans sakna ég stundum. Vinur minn á hann núna svo ég veit að hann er í góðum höndum,“ segir Árdís sem ekur um á óvenjulegum og skemmtilegum bíl í dag. Það er Skoda Octavia vRS Turbo, 2002 árgerð. „Hann er alveg þokkalega sprækur og kom mér eiginlega á óvart. Hann fær ekkert að fara af heimilinu aftur,“ segir hún.

Draumabíllinn er ekki síður óvenjulegur. „Það er eiginlega Chevrolet Half-Ton truck, eins og hann heitir. Það er eldgamall pallbíll með stepside hliðum, hjólaskálarnar standa út úr pallinum og pallurinn er mjórri en húsið,“ segir Árdís og hún myndi vel vilja eignast einn frá tímabilinu 1946 - 1959 en enginn slíkur bíll er til hér á landi, svo hún viti til og ef svo væri er næsta víst að hún hefði mikinn áhuga á honum!

Framhaldslíf fyrir þá gömlu

Námið í bílamáluninni hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt, að sögn Árdísar. „Ég er búin að læra margt og þetta er mjög skemmtilegt nám fyrir þá sem hafa áhuga á að laga það sem er orðið gamalt og lúið. Minn áhugi felst einna helst í því að gefa þessu gamla framhaldslíf eða halda því gangandi, ef það má orða það þannig,“ segir hún.

Árdís er nú farin af landi brott til skamms tíma en hún fékk styrk til skiptináms. Hún er stödd í Suður-Frakklandi þar sem hún verður í starfsnámi á góðu sprautuverkstæði. Sjálf hafði hún ekki hugmynd um að til væri skiptinám fyrir iðngreinar fyrr en hún tók þátt í Íslandskeppni verk- og iðngreina, Verkiðn, þar sem hún vann til silfurverðlauna. Á sama stað var verið að kynna skiptinám í iðngreinum, þar á meðal í bíliðninni og það vakti áhuga Árdísar sem hefur alltaf haft það að markmiði að ljúka námi hér heima, fara síðan utan til að auka við þekkinguna og bæta við þann mannauð sem til er í bíliðninni. Árdís fékk styrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins og fer út á vegum Iðunnar fræðsluseturs. Hún er fyrsti íslenski bílamálunarneminn hér á landi sem fer erlendis til skiptináms. „Þeir í skólanum úti eru mjög hissa á því að skiptineminn sé kvenmaður því það er víst færra kvenfólk í greininni þar en hér og samt eru of fáar konur hér. Þannig að ég fer út með opnum huga,“ segir Árdís sem ætlar að læra sem mest á næstu vikum úti í Frakklandi. Í sumar heldur hún áfram að vinna hjá Bílasprautun Íslands þar sem hún kann afar vel við sig.

Þeir sem vilja fylgjast með Árdísi á námstímanum úti geta lesið bloggfærslur hennar á vef Live2Cruize. Slóðin er www.live2cruize.com og í aðalvalmyndinni er smellt á „bloggarar“.

malin@mbl.is

Það er mikilvægt að hafa gaman af vinnunni sinni. Þess …
Það er mikilvægt að hafa gaman af vinnunni sinni. Þess vegna valdi Árdís nám í bílamálun.
Ekki er langt síðan Árdís vann silfurverðlaun í Verkiðn, Íslandskeppni …
Ekki er langt síðan Árdís vann silfurverðlaun í Verkiðn, Íslandskeppni verk- og iðngreina. Ljósmynd/Helen Gray
Í Bílasprautun Íslands nýtur Árdís þess að nostra við bíla …
Í Bílasprautun Íslands nýtur Árdís þess að nostra við bíla af ýmsum gerðum.
Með það að markmiði að gefa gömlum bílum framhaldslíf fór …
Með það að markmiði að gefa gömlum bílum framhaldslíf fór Árdís að læra bílamálun og á eina önn eftir af náminu við Borgarholtsskóla. Ljósmynd/Helen Gray
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: